FréttirSkrá á póstlista

25.10.2016

Sumargotssíldin fannst djúpt vestur af Reykjanesi

Fyrsta íslenska sumargotssíldin á vertíðinni veiddist í síðustu viku eftir að skipin fundu síldina loks djúpt vestur af Reykjanesi og Faxaflóa. Að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Víkingi AK, er síldin mjög dreifð á stóru svæði en hún virðist vera vel haldin og meðalvigtin er um 300 grömm.

Er við náðum tali af Alberti nú um hádegisbilið var Víkingur út af Eyjafirði á leið til Vopnafjarðar. Reiknað er með því að skipið komi til hafnar seint í kvöld.

,,Það gekk ekkert of vel að finna síldina að þessu sinni. Við fórum ásamt Venusi NS fyrst til síldveiða fyrir miðjan mánuðinn en þá var ekkert að sjá fyrir vestan landið. Við fórum því í einn kolmunnatúr og síðan var aftur skroppið vestur fyrir land. Þá sást lítið og vegna brælu, sem spáð var, fórum við til Reykjavíkur. Þar vorum við þar til að fregnir bárust af því að vart hefði orðið við síld. Við fórum því aftur út og tókum fyrsta holið sl. laugardag,“ segir Albert en að hans sögn voru þá fjögur skip komin á miðin.

,,Við byrjuðum um 60 mílur vestur af Garðskaga og unnum okkur norður eftir. Síðasta holið af fimm tókum við djúpt í Kolluálnum í gær og við lögðum af stað áleiðis til Vopnafjarðar um kl. 16.“

Albert segir erfitt að gera sér grein fyrir því hvort mikið sé af síld vestan við landið.

,,Lóðningarnar voru ekki mjög sterkar en síldin virðist vera dreifð yfir mjög stórt svæði. Ástandið virðist vera svipað alls staðar. Veiðin er minnst um hádegisbilið en meiri fyrst á morgnana og svo síðdegis,“ segir Albert Sveinsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir