FréttirSkrá á póstlista

20.10.2016

Biðu af sér bræluna á Straumnesbankanum

,,Fiskveiðiárið fer ágætlega af stað. Helsti munurinn nú í samanburði við nokkur undanfarin ár er sá að síðan í ágúst höfum þurft að hafa meira fyrir því að veiða þorskinn. Áður þvældist hann frekar fyrir okkur en hitt,“ sagði Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Sturlaugi H. Böðvarssyni AK, er rætt var við hann fyrr í dag.

Sturlaugur H. Böðvarsson er nú að veiðum á Vestfjarðamiðum en vegna óveðursins, sem var í gærkvöldi og í nótt, hélt skipstjórinn skipinu nær landi og í vari fyrir verstu vindhviðunum.

,,Við erum nú á Straumnesbankanum og það er ekki hægt að segja að veiðin sé merkileg. Aflinn er um tonn á tímann og hér er bara þorskur. Höfrungur III AK er að ýsuveiðum hér austur af okkur en Ottó N. Þorláksson RE, sem kom hingað norður í morgun, er úti á Hala. Það er spáð betra veðri með kvöldinu og mér þykir líklegast að við færum okkur út á Halamið þegar líður á daginn,“ segir Eiríkur en að hans sögn var leiðindaveður í nótt á Straumnesbankanum eða um 15-17 m/s. Örugglega hafi veðrið verið mun verra utar, s.s. á Halanum.

Að sögn Eiríks hefur veiði á gullkarfa gengið vel en lítið er sótt beint í gullkarfann.

,,Það er hægt að veiða gullkarfann fyrir sunnan en við höfum ekki stundað mið eins og Fjöllin og Skerjadjúpið í lengri tíma. Hér á Vestfjarðamiðum hefur verið hægt að veiða gullkarfann í Víkurálnum og þorsk og ufsa á Halanum. Það veltur á ganginum í þorskveiðunum hvort við höfum tíma til koma við í Víkurálnum á leiðinni suður. Annars stjórnar vinnslan í landi ferðinni,“ sagði Eiríkur Jónsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir