FréttirSkrá á póstlista

18.10.2016

Leita að íslensku síldinni fyrir vestan land

Víkingur AK og Venus NS voru í gærdag á leið vestur fyrir landið þar sem leitað verður að íslenskri sumargotssíld í veiðanlegu magni næstu dagana. Að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Víkingi, er von til að þriðja skipið, Ásgrímur Halldórsson SF frá Skinney-Þinganesi, bætist í hópinn en skipið var í Reykjavík um hádegisbilið í gær.

,,Við erum núna út af Ísafjarðardjúpi en í gær vorum við á Vopnafirði þar sem smávegis af kolmunna var landað. Við leituðum að kolmunna við SA land ásamt Venusi en það var lítið að sjá og hvort skip tók ekki nema eitt hol. Nú er það íslenska síldin, sem leitað verður að, og Venus er á sömu leið og við,“ sagði Albert er rætt var við hann.

Undanfarin tvö ár hefur íslenska síldin aðallega veiðst djúpt vestur af Snæfellsjökli og Faxaflóa. Fá skip eru að öðrum veiðum á því svæði og því lítilla frétta að vænta fyrr en uppsjávarskipin finna síldina.

,,Það myndi gegna öðru máli ef við værum að leita að loðnu. Það er vitað um loðnu á Halanum enda eru veiðarfæri togara og togveiðiskipa að koma upp loðin af loðnu. Hvað varðar síldina þá myndi það létta róðurinn ef fleiri skip kæmu til leitar en margir eru enn að veiða norsk-íslenska síld fyrir austan. Þeir koma ekki hingað vestur fyrr en sá kvóti er búinn,“ sagði Albert Sveinsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir