FréttirSkrá á póstlista

16.10.2016

HB Grandi bauð þátttakendum á Arctic Circle í hádegismat

Talið er að á um þriðja þúsund manns hafi sótt rástefnu Hringborgs norðurslóða (Arctic Circle) í Reykjavík í liðinni viku en ráðstefnunni lauk í Hörpu sl. sunnudag. Í hádeginu á föstudag var öllum gestum á ráðstefnunni boðið í hádegisverð af HB Granda.

Arctic Circle er opinn lýðræðislegur vettvangur með þátttöku ríkisstjórna, stofnana, fyrirtækja, háskóla, umhverfissamtaka og annarra sem áhuga hafa á þróun norðurslóða og afleiðingum hennar fyrir framtíð heimsins. Sem slíkur er Arctic Circle stærsti vettvegur sinnar tegundar í heiminum. Formaður Arctic Circle er Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.

HB Grandi er einn af styrktaraðilum Arctic Circle, eða svokallaður Strategic Partner, og mættu 15 manns frá félaginu á ráðstefnuna í Hörpu. Að sögn Brynjólfs Ejólfssonar, markaðsstjóra félagsins, þótti því við hæfi að bjóða þátttakendum upp á hádegisverð. Í boði var m.a. karfi í nokkrum útfærslum og sáu starfsmenn veitingastaðarins Kolabrautarinnar um matreiðsluna og alla framreiðslu. Matseðillinn var sem hér segir:

Steiktur gullkarfi með kryddlögðum gulrótum og dilli.
Grillaður gullkarfi með vatnakarsa og jarðskokkum.
Reyktur gullkarfi með grænkáli og fennel.
Brauðsnittur með gullkarfatartar og reyktum karfa.
Grænmetissúpa með íslensku haustrótargrænnmeti.
Súrdeigsbrauð með grænmeti.
Skyrmús með hindberjum.

Kristín Helga Waage Knútsdóttir, aðstoðarmaður forstjóra HB Granda, var ein þeirra sem höfðu veg og vanda af skipulagningu á þátttöku félagsins á ráðstefnunni og hádegisverðarboðinu og hún segir þennan mikla fjölda ekki hafa skapað nein vandamál.

,,Það var mjög vel mætt enda var hádegisverðurinn á dagskrá ráðstefnunnar. Fólk tók vel til matar síns og hafði sérstaklega á orði við okkur hve góður maturinn væri og vel fram borinn. Starfsfólk Kolabrautarinnar stóð sig með prýði og á heiður skilið fyrir sitt framlag, segir Kristín Helga Waage Knútsdóttir.


Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir