FréttirSkrá á póstlista

14.10.2016

Veiddu 29 þúsund tonn af makríl og NÍ síld í sumar

Góðri makrílvertíð og veiðum á síld úr norska-íslenska síldarstofninum er nú lokið hjá skipum HB Granda, Venusi NS og Víkingi AK, og næst á dagskrá eru veiðar á íslenskri sumargotssíld og kolmunna. Að sögn Garðars Svavarssonar, framkvæmdastjóra uppsjávarsviðs HB Granda, gengu veiðar í sumar eins og best verður á kosið.

,,Samkvæmt fyrirliggjandi aflaupplýsingum veiddust 21.700 tonn af makríl og 7.300 tonn af norsk-íslenskri síld á tímabilinu frá 2. júlí fram til loka septembermánaðar,“ segir Garðar en allur aflinn hefur farið til vinnslu hjá uppsjávarfrystihúsi félagsins á Vopnafirði. Þar var nánast óslitin vaktavinna allan sólarhringinn á meðan vertíðinni stóð.
 
,,Skipin fara nú og reyna fyrir sér í veiðum á íslensku síldinni en eftirstöðvar kvótans eru 6.200 tonn. Verði bið á því að síldin gefi sig til verður fyrst reynt við kolmunna,“ segir Garðar Svavarsson.

Því er við þetta að bæta að skipin eru nú bæði að kolmunnaveiðum undan SA landi.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir