FréttirSkrá á póstlista

11.10.2016

Þýskir matreiðslumeistarar sóttu HB Granda heim

Góðir gestir sóttu HB Granda heim í liðinni viku. Þar var um að ræða átta þýska matreiðslumeistara sem voru hér á vegum þýska fyrirtækisins Deutsche See í Bremerhaven. Þýska félagið er mikilvægur viðskiptavinur HB Granda og kaupir héðan ferskar afurðir eins gullkarfa, ufsa og þorsk.

Þýsku matreiðslumeistararnir dvöldu hérlendis í fimm daga og var markmiðið að kynnast íslenski matarmenningu. Tíminn var vel notaður og m.a. var farið til Vestmannaeyja í heimsókn á veitingastaði og eins gafst tóm til heimsókna til íslenskra starfsbræðra sem eiga sæti í íslenska kokkalandsliðinu.

Heimsóknin í höfuðstöðvar HB Granda að Norðurgarði hófst árla morguns með móttöku um borð í Helgu Maríu AK. Að henni lokinni var haldið upp á umhverfislistaverkið Þúfu áður en gestirnir fengu kynningu á starfsemi HB Granda. Fulltrúi frá Íslandsstofu, sem var með í för, kynnti verkefnið Iceland Responsible Fisheries en það felur í sér að fiskveiðar eru aðeins stundaðar á ábyrgðan hátt úr stofnum sem taldir eru vera sjálfbærir. Að kynningunni lokinni var farið í skoðunarferð um vinnsluna á Norðurgarði og gestunum gafst einnig kostur á því að kynna sér úrval ferskra afurða úr gullkarfa, ufsa og þorski.

Deutsche See er mikilvægur viðskiptavinur HB Granda. Félagið vinnur sínar fiskafurðir til sölu á neytendamarkaði eða til veitingastaða. Hinir þýsku matreiðslumeistarar, sem boðið var til Íslands, eru fulltrúar nokkurra þessara staða. Í því sambandi má m.a nefna tveggja stjörnu Michelin stað í hjarta Berlínarborgar, Sushi-stað í Munchen og skandínavískan veitingastað í Bremerhaven.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir