FréttirSkrá á póstlista

06.10.2016

Mikið magn af norsk-íslenskri síld á ferðinni

,,Það má heita að við höfum bara farið í eina veiðiferð gagngert til þess að veiða norsk-íslensku síldina. Í einum makríltúrnum var aflinn að uppistöðu norsk-íslensk síld og hlutfall síldar í aflanum hækkaði verulega eftir því sem á leið vertíðina. Það er greinilega mjög mikið af síld á ferðinni og það veit á gott,“ segir Hjalti Einarsson, skipstjóri á Víkingi AK.

Er tal náðist af Hjalta var Víkingur út af Vestfjörðum á leið til Reykjavíkur frá Vopnafirði. Þar var 1.050 tonnum af síld landað í byrjun vikunnar en aflinn fékkst í Seyðisfjarðardjúpi og á Glettinganesgrunni. Að sögn Hjalta er síldin mjög væn eða tæplega 400 grömm að jafnaði.

,,Síldin hefur veiðst með makrílnum í allt sumar en menn hafa reynt að forðast hana vegna þess að kvótinn er ekki stór. Við enduðum makrílvertíðina úti í Síldarsmugunni en makríllinn þar var af blandaðri stærð,“ segir Hjalti en þess má geta að frá Vopnafirði og austur á veiðisvæðið í Síldarsmugunni eru um 400 sjómílur.

,,Við þurftum hins vegar ekki að fara nema 70 til 80 mílur eftir síldinni þannig að munurinn á siglingartímanum undir lok vertíðarinnar var mikill.“

Sem fyrr segir fer Víkingur nú til Reykjavíkur og þar verður skipt um veiðarfæri.

,,Við munum fara til veiða á íslensku sumargotssíldinni með 1408 trolli frá Hampiðjunni og við tökum einnig kolmunnatroll með okkur ef einhver bið verður á því að íslenska síldin gangi á miðin. Við höfum ekki haft spurnir af síldveiði úr íslenska stofninum en undanfarin tvö ár hefur mesta veiðin verið í og út af Kolluálnum. Síldin hefur ekki skilað sér inn á Breiðafjörðinn á síðustu tveimur vertíðum, hvað svo sem gerist núna,“ segir Hjalti Einarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir