FréttirSkrá á póstlista

06.10.2016

Luku málinu með lágri sektargreiðslu

,,Það má eiginlega skrifa þessa uppákomu á misskilning í skeytasendingum á milli okkar og rússnesku strandgæslunnar. Við tilkynntum okkur inn í rússneska landhelgi eins og við erum vanir að gera en samkvæmt túlkun rússneska sjóhersins þá áttum við að bíða eftir staðfestingarskeyti um að heimilt væri að fara yfir landhelgislínuna. Þessu lauk þó öllu á farsælan hátt með sátt um sektargreiðslu upp á 500 dollara eða jafngildi um 57.000 króna.“

Þetta sagði Ægir Fransson, skipstjóri á frystitogaranum Þerney RE, er tal náðist af honum en rússneski sjóherinn stöðvaði för skipsins síðdegis í gær vegna meints brots á rússneskum lögum. Að sögn Ægis er rússneski sjóherinn nú með mjög umfangsmiklar heræfingar í Barentshafi. Stórir hlutar hefðbundinna fiskimiða og siglingarleiða eru nú lokaðar allri skipaumferð nema hluta sólarhringsins og þá með sérstöku leyfi sjóhersins.

,,Það má vera að heræfingarnar séu ástæðan fyrir þessum viðbrögðum nú. Við erum vanir samskiptum við rússnesku strandgæsluna og höguðum okkur í samræmi við það. Nú virðist sjóherinn hins vegar stjórna öllu,“ segir Ægir.

Þerney fór frá Kirkenes í Finnmerkurfylki í Noregi um hádegisbil í gær áleiðis að svokölluðum tékkpunkti inn í rússnesku lögsöguna. Sú sigling tekur að jafnaði um fjóra tíma.

,,Við eigum að taka rússneskan eftirlitsmann um borð úti á sjó á þessum tékkpunkti en mörg undanfarin ár hefur strandgæslan beðið okkur um að taka hann um borð inni á firði og nær landi. Við höfðum það í huga en stefndum þó á tékkpunktinn þar sem að beiðni um annað hefði ekki borist. Samkvæmt rússneska sjóhernum fórum við klukkutíma of snemma yfir miðlínuna á milli norsku og rússnesku lögsögunnar. Við vorum því stoppaðir af herskipi seinni partinn í gær og það varð úr að ég fór við annan mann um borð í herskipið. Þar skýrðum við málið og niðurstaðan var sú að samið var um 500 dollara sektargreiðslu og við vorum aftur komnir í Þerney með eftirlitsmanninn með okkur fyrir miðnætti,“ segir Ægir Fransson.

Er rætt var við Ægi beið hann eftir því að ákveðið hólf eða hafsvæði yrði opnað fyrir siglingum frá kl. 17:00 til 05:00 að íslenskum tíma en sá tímarammi verður notaður til þess að sigla 130 sjómílna leið austur á Gæsabanka þar sem veiðar eiga að hefjast.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir