FréttirSkrá á póstlista

22.09.2016

Þurftum að hafa fyrir þorskaflanum

Ísfisktogarinn Helga María AK kom til hafnar í Reykjavík í gærmorgun eftir um fimm daga veiðiferð á Vestfjarðamið. Aflinn var um 140 tonn og þar af var um helmingur aflans þorskur. Þrátt fyrir það segir Ævar Pálsson skipstjóri að hafa þurfi fyrir því að veiða þorsk á Vestfjarðamiðum þessa dagana. Þorskurinn sé a.m.k. ekki í bunkum á Halanum.

,,Það virðist vera nóg af karfa, jafnt á Fjöllunum hér syðra sem og í kringum Víkurálinn, og við byrjuðum túrinn á karfaveiðum í Víkurálnum. Þaðan unnum við okkur norður á Halamið og í Heiðardalinn, sem svo er kallaður, en hann er út af Þverálshorninu. Við enduðum svo á svokallaðri Sneið, sem er norðaustan við Þverálshornið, en þar fundum við þokkalega þorsktorfu,“ segir Ævar en að hans sögn byrjar fiskveiðiárið líkt og hið fyrra endaði eða á hinni, að því er virðist, eilífu leit að ufsa í veiðanlegu magni.

,,Ufsinn er til en það er erfitt að hitta á hann. Þorskurinn er sömuleiðis vandfundnari í byrjun þessa fiskveiðiárs en oftast áður en sem fyrr segir er nóg af karfa.“

Að sögn Ævars er stefnt að því að skipið fari til veiða að nýju um miðjan dag.

,,Ég reikna með því að byrja einhvers staðar á heimamiðum hér suðvestanlands enda er spáð norðan stormi og brælu fyrir norðan land. Maður sá það strax á þriðjudag að menn byrjuðu á að flýja veðrið og færa sig sunnar og við förum því ekki aftur norður á Vestfjarðamið fyrr en veðrið gengur niður,“ segir Ævar Pálsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir