FréttirSkrá á póstlista

20.09.2016

Óhemju magn af makríl á Íslandsmiðum í sumar

,,Það hefur greinilega verið óhemju magn af makríl við landið í sumar. Við sjáum það best á því að nýjar torfur skila sér reglulega á Hvalbakssvæðið og síðan norður með Austfjörðum áður en þær hverfa út á djúpið austur af landinu. Samkvæmt fréttum eru trillurnar enn að gera það gott á makrílveiðunum fyrir vestan þannig að heildarmagnið hlýtur að hafa verið gríðarmikið.“

Þetta segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Venusi NS, en skipið er nú á Vopnafirði.

,,Tíðarfarið hefur verið frekar leiðinlegt síðustu dagana og það kemur niður á veiðunum. Við fengum mjög gott veður einn dag um daginn og þá var myljandi makrílveiði. Þetta eru ekki stórar brælur, sem verið hafa að undanförnu, en það virðist vera nóg að sjóinn ýfi og hreyfing sé á yfirborðslaginu til að makríllinn gefi sig síður til,“ segir Guðlaugur en hann segir að auk makrílveiða hafi verið svipast um eftir norsk-íslensku síldinni.

,,Síldin heldur sig yfirleitt aðeins grynnra og nær landinu og það er auðveldara að eiga við hana en makrílinn sem er á blússandi ferð. Menn byrja oftast að fylgja makríltorfunum frá Hvalbaknum norður eftir en um leið og þær fara út af landgrunnsbrúninni þá dettur veiðin niður. Á meðan það nóg af makríl að skila sér austur með landinu þá þarf ekki að leita að honum annars staðar. Mér kæmi þó ekki á óvart að einhver skip fari til veiða austur í Síldarsmuguna áður en vertíðin er úti. Ég reikna með því að það taki skip HB Granda a.m.k. tvær vikur að veiða kvótann, makríl og síld, en ef veðrið verður gott þá tekur það skemmri tíma,“ segir Guðlaugur Jónsson en hann getur þess að makríllinn sem veiðst hafi að undanförnu sé mjög vænn. Meðalvigtin er um og yfir 450 grömm.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir