FréttirSkrá á póstlista

12.09.2016

Mikil ferð á makrílnum í NA átt

,,Við vorum að veiðum úti af Fáskrúðsfirði í síðasta túr og vorum þá með um 860 tonna afla. Uppistaðan af því var makríll en við vorum þó með 260 tonna síldarkast í lokin á þeirri veiðiferð.“

Þetta sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK, er við náðum tali af honum í morgun. Albert var þá staddur með skipið norður af Borgarfirði eystri á leiðinni á miðin eftir löndun á Vopnafirði.

,,Það er búið að vera leiðinda veður og lítill afli eftir að við fórum í land. Það er SA kaldafýla í dag og það virðist vera lítill kraftur í veiðunum,“ segir Albert en að hans sögn hefur makríllinn verið á hraðri NA leið.

,,Við höfum fylgt torfunum eftir þar til að þær leysast upp og makríllinn hverfur austur í djúpið. Þá hefur verið reynt að sitja fyrir nýrri torfu sunnar og fylgja henni eftir og þannig hefur þetta gengið. Við fórum í fyrra eftir makrílnum allt austur í Síldarsmuguna og mér kæmi ekki á óvart þótt það sama myndi gerast núna,“ segir Albert Sveinsson. 

Miðað við kvótastöðu HB Granda í makríl og norsk-íslenskri síld þyrfti ekki að koma á óvart þótt Víkingur og Venus NS yrðu á þessum veiðum út mánuðinn.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir