FréttirSkrá á póstlista

01.09.2016

Gríðarleg ferð á makrílnum

,,Við vorum að ljúka við síðasta holið og erum nýlagðir af stað til Vopnafjarðar. Áætlaður afli er rúmlega 900 tonn og þar af fengum við um 420 tonn í síðasta holinu hér suðaustan við Hvalbakinn. Allt er þetta stór og fallegur fiskur og meðalvigtin hjá okkur er um 430 grömm,“ sagði Róbert Axelsson, skipstjóri á Venusi NS, er tal náðist af honum síðdegis í gær.

Að sögn Róberts hefur verið gríðarleg ferð á makrílnum upp á síðkastið og hann segir að menn eigi fullt í fangi með að fylgja göngunni.

,,Það er makríll mjög víða, jafnt hér suður af okkur, s.s. í Lónsdjúpi, sem og norður með öllum Austfjörðum. Maður sér álitlega torfu og reynir að fylgja henni en það þýðir ekkert að ætla sér að komast fram fyrir torfuna og kasta á móti henni. Til þess er ferðin á fisknum of mikil. Í raun er stórkostlegt að fylgjast með þessu,“ segir Róbert.

Að mörgu er að huga fyrir áhafnir uppsjávarskipanna þessa dagana.

,,Við höfum oft orðið varir við álitlegar makríltorfur sem við höfum ekki kastað á yfir nóttina því þá kemur síldin upp í yfirborðið og hana höfum við forðast að fá sem aukaafla. Að morgni er makríllinn svo oft horfinn. Eins er það þegar komið er norður í kantinn á Seyðisfjarðardjúpi og svæðið þar norður af. Þá gengur makríllinn norðaustur eða austur á dýpið og hverfur þar. Eftir því sem skipunum fækkar verður erfiðara fyrir okkur að finna makrílinn aftur og fylgja honum eftir,“ segir Róbert Axelsson.

Þess má geta að Víkingur AK kom til Vopnafjarðar með um 840 tonna afla sl. mánudag en skipið átti að fara aftur á miðin nú um miðja vikuna.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir