FréttirSkrá á póstlista

30.08.2016

Bolfiskvinnsla gæti hafist á Vopnafirði í nóvember

Framkvæmdum við nýja bolfiskvinnslu HB Granda á Vopnafirði miðar vel og ef allt gengur að óskum gæti bolfiskvinnsla á vegum félagsins hafist í nóvembermánuði nk. Vinnslan er til húsa þar sem Tangi hf. starfrækti áður frystihús og er vinnslusalurinn um 500 fermetrar að flatarmáli. Þar munu 35 til 40 manns vinna við bolfiskvinnsluna.

Að sögn Bárðar Jónassonar, tæknistjóra HB Granda á Vopnafirði, er von á frystivélum nú um mánaðamótin sem og loftræstisamstæðunni fyrir loftræstikerfið. Annar búnaður er á áætlun.

,,Við verðum hér með hausara og tvær flökunarvélar frá Curio ehf. í Hafnarfirði. Karabúnaður, roðkælir og roðrifubúnaður kemur frá Skaganum hf. á Akranesi og Flexicut vatnsskurðarvél og snyrti- og pökkunarlína er frá Marel,“ segir Bárður en áður en hægt verður að koma öllum fiskvinnslubúnaði fyrir þarf að leggja lokahönd á frágang vinnslusalarins.

,,Næsta stóra verkefnið felst í því að epoxýefni verður sett á gólfið og upp á veggina í vinnslusalnum. Mér skilst að það verk, að leggja efnið og láta það þorna, taki um 18 daga og fyrst eftir að því lýkur verður hægt að fara í uppsetningu á tækjum og huga að nauðsynlegum lögnum og tengingum vegna þeirra,“ segir Bárður Jónasson.

Það er Mælifell ehf., trésmiðja á Vopnafirði sem hefur haft veg og vanda af því að breyta húsakynnum gamla frystihússins þannig að þau henti nýrri bolfiskvinnslu HB Granda.

,,Það hefur verið ágætur gangur í þessu hjá okkur. Allir gifsveggir eru komnir upp og strax eftir helgi getum við byrjað að flísaleggja búningsaðstöðuna. Öll önnur sameiginleg aðstaða er sömuleiðis að verða tilbúin,“ segir Steindór Sveinsson hjá Mælifelli ehf. en samkvæmt upplýsingum hans hafa um átta til níu manns frá fyrirtækinu komið að vinnunni við húsnæðið í sumar, auk málara og múrara.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir