FréttirSkrá á póstlista

24.08.2016

Breytingar á stjórnskipulagi HB Granda

Breytingar hafa verið gerðar á stjórnskipulagi HB Granda hf. Verið er að útfæra nánar skipulagsbreytingar sem gerðar voru 2013 með það að markmiðið að stjórnskipulag félagsins styðji sem best við virðiskeðju í rekstri félagsins, veiðar, vinnslu, sölu og dreifingu á afurðum félagsins.

Framkvæmdastjórn sviða

Ákveðið hefur verið að breyta starfsheitum yfirstjórnar. Hingað til hefur starfsheiti yfirmanna sviða verið deildarstjóri en verður héðan í frá framkvæmdastjóri. Engar mannabreytingar eru í hópi yfirmanna sviða.

Framkvæmdastjórar sviða hjá HB Granda

Brynjólfur Eyjólfsson framkvæmdastjóri markaðssviðs

Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri uppsjávarsviðs

Jónas Guðbjörnsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs

Svavar Svavarsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar

Torfi Þ. Þorsteinsson framkvæmdastjóri botnfisksviðs

Skrifstofa forstjóra

Stjórnun gæðamála HB Granda

Starf forstöðumanns gæðamála HB Granda sem Erlendur Stefánsson gegnir og störf gæðastjóra sem undir hann heyra færast af markaðssviði á skrifstofu forstjóra.

Erlendur Stefánsson hefur starfað sem gæðastjóri HB Granda og haft umsjón með gæðamálum fyrirtækisins frá árinu 2014. Erlendur er með B.Sc. gráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands frá árinu 1999. Á árunum 1999 til 2014 starfaði Erlendur hjá Royal Iceland hf. og forverum þess félags, Fram Foods Ísland og Bakkavör Ísland. Þar var Erlendur lengst af gæða- og vöruþróunarstjóri. Áður hafði hann starfað við vöruþróun hjá Sól-Víking samhliða námi.

Botnfisksvið

Aðstoðarframkvæmdastjóri

Karl Már Einarsson tekur við nýju starfi aðstoðarframkvæmdastjóra botnfisksviðs sem er fjölmennasta svið HB Granda en þar starfa um 600 einstaklingar. Karl Már hefur gegnt starfi útgerðarstjóra frystiskipa HB Granda undanfarin tvö ár. Áður en Karl Már kom til starfa hjá HB Granda var hann útgerðarstjóri hjá Brim hf. frá árinu 2007, en þar á undan útgerðarstjóri hjá Eskju hf.

Karl Már lauk á síðasta vori meistaranámi í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskólanum í Reykjavík. Karl útskrifaðist með B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri árið 2002.

Útgerðarstjóri frystiskipa

Loftur Bjarni Gíslason tekur við af Karli Má sem útgerðarstjóri frystiskipa.

Frá árinu 2013 hefur Loftur Bjarni starfað sem útgerðastjóri ísfiskskipa HB Granda, en hann hefur starfað í útgerðadeild félagsins frá árinu 2006

Loftur útskrifaðist með B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri árið 2007.


Útgerðarstjóri ísfiskskipa

Birkir Hrannar Hjálmarsson tekur við af Lofti Bjarna sem útgerðarstjóri ísfiskskipa.  

Birkir hóf störf hjá HB Granda árið 2004 sem rekstrarstjóri togara, en undanfarin 3 ár hefur Birkir gengt stöðu framleiðslustjóra HB Granda í Reykjavík. Birkir starfaði sem sérfræðingur hjá Verðlagsstofu skiptaverðs áður en hann hóf störf sem rekstrarstjóri togara HB Granda.

Birkir útskrifaðist með B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri árið 2001.

Framleiðslustjóri Norðurgarði

Gísli Kristjánsson tekur við starfi framleiðslustjóra af Birki í fiskiðjuverinu í Reykjavík.

Gísli hefur starfað sem sérfræðingur á botnfisksviði HB Granda frá því um haustið 2013 og unnið að sérverkefnum. Áður en Gísli hóf störf hjá HB Granda hafði hann starfað sem aðstoðarkennari í rekstrarfræði og iðnaðartölfræði við Véla- og iðnaðarverkfræðideild Háskóla Íslands, unnið að verkefnum fyrir Hraðfrystihúsið Gunnvöru hf., Matís ohf. og Icelandic Japan K.K. í Tokyo í Japan.

Gísli útskrifaðist með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands árið 2013.

Fjármálasvið

Reikningshald

Breytingar hafa verið gerðar á skipuriti reikningshalds. Starf aðalbókara hefur verið lagt niður og skipulagi innan deildarinnar breytt þannig að bókhaldsteymi vinnur í sameiningu að öllum verkefnum í bókhaldi.

Auður Arnarsdóttir hefur verið ráðin til starfa sem viðbót í bókhaldsteymi, sem bókhaldsfulltrúi. 

Auður hefur störf hjá HB Granda 1. september 2016.  Síðastliðin tvö ár hefur Auður starfað sem skrifstofustjóri hjá Leigufélaginu Kletti, en á árunum 1998-2014 starfaði hún við bókhald hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Auður er viðurkenndur bókari. 

Fjárreiður

Unnur Ingibjörg Jónsdóttir hefur verið ráðin fjárreiðustjóri.

Unnur Ingibjörg hóf störf hjá HB Granda 14. júlí síðastliðinn. Áður var hún sjálfstætt starfandi sem ráðgjafi í markaðs- og kynningamálum.  Á árunum 2011-2014 starfaði Unnur hjá LS Retail sem viðburðarstjóri og ritstjóri.  

Unnur lauk MBA frá Háskólanum í Reykjavík 2010 og B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1999. 


Starfsmanna- og launadeild

Vala Sandra Valsdóttir hefur verið ráðin sem fulltrúi í starfsmanna- og launadeild.

Vala hóf störf hjá HB Granda 11. ágúst síðastliðinn. Vala starfaði áður við launavinnslu hjá Reykjavíkurborg frá árinu 2013 og í launavinnslu hjá Alcoa Fjarðaáli á árunum 2010-2013.




Sigríður Lovísa Sigurðardóttir
hefur verið ráðin í afleysingar í launadeild vegna fæðingarorlofs Ernu S. Gunnarsdóttur. 

Sigríður hóf störf hjá HB Granda 23. júlí síðastliðinn en hún starfaði áður sem þjónusturáðgjafi/gjaldkeri hjá Íslandsbanka frá árinu 2006 til 2015.

 

Markaðssvið

Breytingar hafa verið gerðar á stjórnskipulagi á markaðssviði. 

Botnfiskafurðir

Sólveig Arna Jóhannesdóttir hefur tekið við starfi markaðsstjóra botnfiskafurða, sem er nýtt starf á markaðssviði. Sólveig hóf störf hjá HB Granda árið 2005 sem markaðsfulltrúi en hefur frá árinu 2006 gengt stöðu sölustjóra fyrir ferskar afurðir.

Sólveig starfaði við markaðsrannsóknir hjá IMG áður en hún hóf störf hjá HB Granda en hafði áður starfað við verkstjórn og sem sölumaður sjávarfangs. Eftir að hafa lokið námi fiskiðnaðarmanns við Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði árið 1988 útskrifaðist hún sem fisktæknir á iðnrekstarbraut Tækniskóla Íslands árið 1992. Hún lauk auk þess B.Ed. prófi af upplýsingatæknisviði KHÍ árið 2006.

Arthur Karlsson hefur störf sem sölufulltrúi landfrystra og ferskra afurða í ágúst 2016. Arthur hefur starfað sem flokkstjóri í afskipun í Norðugarði frá árinu 2009. Arthur hefur áður starfað við sölu, innkaup, verslunar og rekstrarstjórnun hjá verslununum Módern, Sony Center á Íslandi og hjá Sony í Þýskalandi.




Sindri Már Atlason
tekur við starfi sölustjóra ferskra afurða. Sindri hefur lokið M.Sc. gráðu í Logistics and Supply Chain Management frá Cranfield University Englandi og B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri. Sindri hefur starfað sem sölufulltrúi á markaðssviði HB Granda frá árinu 2014 en áður starfaði hann hjá Vigni G. Jónssyni.



Uppsjávarafurðir

Jón Helgason tekur við starfi markaðsstjóra uppsjávarafurða sem er jafnframt nýtt starf á markaðssviði.

Jón starfaði hjá Haraldi Böðvarssyni frá árinu 1991 sem framleiðslustjóri og þar áður sem framleiðslustjóri Heimaskaga frá árinu 1983. Hann tók við stöðu sölustjóra uppsjávarfisks hjá HB Granda árið 2005. Vorið 1978 var Jón ráðinn sem háseti á Krossvík AK-300 og hefur hann því starfað samfleytt hjá HB Granda og félögum sem runnið hafa inn í HB Granda frá þeim tíma. Jón lauk prófi í útgerðartækni árið 1983.


Flutningar og skjalagerð

Arna Bjartmarsdóttir hefur störf sem fulltrúi í flutningum og skjalagerð í ágúst 2016. Arna er með M.Sc. gráðu í sjávarútvegs- og auðlindafræðum frá HÍ og B.A. próf í spænsku frá sama skóla. Hún starfaði hjá Samskipum á árunum 2007-2014 og hefur einnig starfað m.a. hjá Jónum Transport og Menju.

 

 

 

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir