FréttirSkrá á póstlista

23.08.2016

Loðna dreifð um Vestfjarðamið

Töluvert hefur borið á því að fiskur á Vestfjarðamiðum hafi verið í loðnu og Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK 16, segir að dreifð loðna sé nú víða á Vestfjarðamiðum.

Helga María fór frá Reykjavík um hádegisbil sl. fimmtudag og er samband náðist við Heimi var hann að klára túrinn á þorskveiðum í Nesdjúpi.

,,Við byrjuðum í Víkurálnum og fengum þar ágætan gullkarfaafla. Við drógum síðan norðaustur með kantinum á Halann þar sem við fengum blandaðan afla, karfa og ufsa. Þorsk fengum við svo utar í kaldari sjó,“ segir Heimir en í gær lá leiðin suður á Straumnesbankann út af Ísafjarðardjúpi.

,,Þar fengum við stóran og góðan þorsk og mjög stóran ufsa eða um átta kílóa þungan að jafnaði. Við færðum okkur svo í Djúpkrókinn og á svæðið þar austur af og fengum þar ufsa. Núna vantar okkur nokkur tonn af þorski til að klára túrinn en við höfum tíma fram til kvölds til að ná því magni. Við verðum svo í höfn í Reykjavík í fyrramálið,“ segir Heimir Guðbjörnsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir