FréttirSkrá á póstlista

18.08.2016

Vel gengur í makrílvinnslunni á Vopnafirði

Góður gangur hefur verið í vinnslunni hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði í sumar. Að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra fóru makrílveiðar reyndar rólega af stað en úr því rættist þegar leið á sumarið. Að undanförnu hefur frystihúsið svo verið rekið á fullum afköstum.

,,Þetta er búið að vera mjög gott upp á síðkastið. Það kom smá lægð í veiðarnar upp úr verslunarmannahelginni en frá og með 10. ágúst hefur verið nær stanslaus vinnsla hjá okkur,“ segir Magnús en unnið er á vöktum allan sólarhringinn í uppsjávarfrystihúsinu.

Makríllinn er svipaður að gæðum og undanfarin ár og fituprósentan nú er um 20-22%. Óhætt er að segja að vinnslan hafi verið fjölbreytt.

,,Það hefur verið sáralítið um síld í afla skipanna með makrílnum enda hefur verið reynt að forðast að blanda þessu tvennu saman. Norsk-íslenski síldarkvótinn er að sönnu lítill en ég á samt von á því að við vinnum hér eitthvað af norsk-íslenskri síld áður en veiðar á íslensku sumargotssíldinni hefjast, væntanlega í októbermánuði,“ segir Magnús Róbertsson.

Um 65 til 70 stöðugildi eru hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði en fram að þessu hefur vinna þessa fólks verið mjög árstíðabundin. Bót ætti að ráðast á því í vetrarbyrjun þegar bolfiskvinnsla hefst að nýju á Vopnafirði á vegum HB Granda.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir