FréttirSkrá á póstlista

15.08.2016

Fínn afli í fáum holum

,,Það hefur verið góður afli í síðustu tveimur veiðiferðum og töluvert af fiski á sjá. Ég veit ekki s.s. hvernig staðan á miðunum er núna en við höfum náð skammtinum í þremur til þess að gera stuttum holum í þessum veiðiferðum,“ segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Venusi NS, en hann er nú á Vopnafirði þar sem verið er að ljúka við að landa úr skipinu.

,,Við komum inn í fyrradag og ættum að komast aftur áleiðis á miðin um miðnættið í nótt,“ segir Guðlaugur en undanfarnar tvær veiðiferðir hefur hann verið með skipið á veiðum sunnan við Hvalbak.

,,Það er búið að vera gott veður í allt sumar en þó lentum við í tveggja daga brælu í næst síðustu veiðiferð. Makríllinn gaf sig til eftir að veðrið gekk niður og við fengum ágætan afla,“ segir Guðlaugur en holin að undanförnu hafa yfirleitt verið um fimm tíma löng. Það þykir ekki langur tími og fyrr í sumar þurfti að toga mun lengur og taka fleiri hol til þess að fá viðunandi afla.

Á meðan verið er að landa úr Venusi er Víkingur AK á miðunum austan við Hvalbak og að sögn Hjalta Einarssonar skipstjóra var verið að dæla afla úr síðasta holinu um borð nú síðdegis. Í framhaldinu verður stefnan sett á Vopnafjörð.

,,Veðrið hefur verið í lagi en það er komin einhver kaldafýla núna. Við vorum óheppnir í fyrsta holinu eftir að komið var á miðin og rifum þá belginn á trollinu. Síðan hefur þetta verið í lagi en það þarf að hafa fyrir veiðunum. Þetta er hittingur og of mörg hol að þessu sinni eða fimm talsins. Mér sýnist þó að við séum búnir að ná skammtinum fyrir vinnsluna eða 750 tonnum. Makríllinn er vænn og vel á sig kominn þannig að hann ætti henta vel til vinnslu,“ segir Hjalti Einarsson en samkvæmt upplýsingum hans eru nú ein 15 skip á makrílveiðum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir