FréttirSkrá á póstlista

03.08.2016

,,Búið að vera gott veiðisumar“

,,Við erum nýbyrjaðir veiðiferðina og erum á Halamiðum. Það er rólegt yfir aflabrögðum eins og er en við fengum góðan afla hér í síðustu veiðiferð og heilt yfir er þetta búið að vera gott veiðisumar.“

Þetta sagði Einar Bjarni Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Ásbirni RE, nú síðdegis. Að sögn Einars Bjarna er veiðunum beint jöfnum höndum að þorski, ufsa og karfa og æskilegt aflamagn er um 120 tonn í veiðiferðinni.

,,Við erum yfirleitt um þrjá til fjóra sólarhringa að veiðum og svo fara 17 til 18 tímar í að koma sér til og frá Vestfjarðamiðum. Í síðustu veiðiferð gekk reyndar óvenju vel og við vorum í höfn í Reykjavík að kvöldi sl. sunnudags í stað þess að gert var ráð fyrir okkur til hafnar á þriðjudagsmorgni,“ segir Einar Bjarni en hann upplýsir að ísfisktogarar HB Granda hafi stundað Vestfjarðamið í sumar.

,,Á meðan það er karfi hér á Halanum og það góður karfi þá sækjum við á Vestfjarðamið í stað suðvesturmiða. Reynslan í sumar hefur líka verið góð, ekki síst að undanförnu eftir að ufsaveiðin tók að glæðast. Ufsinn á það reyndar til að láta sig hverfa á milli þess að hann gefur sig til og dagurinn í dag er gott dæmi um það,“ segir Einar Bjarni Einarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir