FréttirSkrá á póstlista

20.07.2016

Akurey RE sjósett í lok ágúst

Vinna við alla þrjá ísfisktogara HB Granda er nú að nýju komin í fullan gang hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi eftir Ramadan, föstumánuð múslima. Engey RE verður afhent fyrir árslok, stefnt er að sjósetningu Akureyjar RE í lok næsta mánaðar og blokkarsmíði vegna Viðeyjar RE er nú hafin.

Að sögn Þórarins Sigurbjörnssonar, sem hefur eftirlit með smíði skipa HB Granda hjá Celiktrans í Istanbul, liggur dagsetning vegna afhendingar Engeyjar enn ekki fyrir. Það styttist hins vegar í prufukeyrslu á vélum og tækjum og reiknað er með að ein ljósavél verði ræst nú í vikunni. Engey var sjósett í byrjun mars sl. 

Öll smíði ísfisktogaranna þriggja fer fram í Celiktrans skipasmíðastöðinni. Sá háttur var hafður á við smíði uppsjávarskipanna Venusar NS og Víkings AK að þau voru sett saman í annarri skipasmíðastöð þar sem Celiktrans leigði aðstöðu en fullnaðarsmíði þeirra fór fram hjá Celiktrans.

Samkvæmt samningi HB Granda og tyrknesku skipasmíðastöðvarinnar verður Engey afhent síðar á þessu ári. Akurey AK verður afhent næsta vor en þriðji og síðasti togarinn, Viðey RE, verður afhentur á haustmánuðum 2017. Skipin eru öll  54,75 metrar að lengd og 13,5 metrar að breidd. Aðalvélar eru af gerðinni MAN 6L27/38 og er skráð afl þeirra 1.790 kW við 800 snúninga á mínútu. Niðurfærslugírar eru frá Reintjes með PTO fyrir ásrafala. Skrúfur eru frá MAN og eru þær 3.800 mm í þvermál. Vélarnar eru allar útbúnar með mengunarvarnarbúnaði af gerðinni SCR Catalysator. Ljósavélar eru tvær í hverju skipi og eru þær af gerðinni MAN D2840 LE 301. Afl hverrar vindu er 443kW.  Spilkerfi eru frá Naust Marine og eru allar vindur rafknúnar. Bógskrúfur eru frá Brunvoll og eru þær 300 kW. Millidekks- og lestarbúnaður verður smíðaður hjá Skaganum 3X og verður hann settur í skipin á Íslandi. Hönnuður skipanna er Alfreð Tulinius, skipatæknifræðingur hjá Nautic ehf.

 


Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir