FréttirSkrá á póstlista

19.07.2016

Á karfa- og ufsaveiðum á Vestfjarðamiðum

,,Veiðiferðin er rétt hafin hjá okkur en við fengum þokkalegt ufsakropp til að byrja með á Halasvæðinu og svo höfum við verið í karfa út af austurkantinum á Víkurálnum.“

Þetta sagði Ægir Franzson, skipstjóri á frystitogaranum Þerney RE, er samband náðist við hann nú síðdegis. Togarinn er til þess að gera nýkominn heim úr rússnesku lögsögunni í Barentshafi en þangað var haldið strax eftir sjómannadaginn.

,,Ég var ekki um borð í þeirri veiðiferð en mér skilst að mjög góður afli hafi fengist til að byrja með en síðan tregaðist aflinn heldur. Heilt yfir var túrinn þó góður,“ segir Ægir en að hans sögn eru það töluverð viðbrigði að vera kominn aftur á bolfiskveiðar að sumarlagi.

,,Við höfum verið á markrílveiðum á sumrin undanfarin sex ár en í ár verðum við á hefðbundnum bolfiskveiðum.“

Að sögn Ægis hafa þorskur og ýsa ekki verið til vandræða það sem af er veiðiferðinni.

,,Við vitum hvar þessar fisktegundir halda sig og það er tiltölulega auðvelt að forðast þær. Reyndar varð vart við ýsu á Látragrunninu um daginn þannig að menn eru aldrei alveg öruggir. Við veiðum þá ýsu, sem við megum veiða, í haust en þá ætti að vera ágætur tími til þess arna,“ segir Ægir en hann upplýsir að HB Grandi eigi enn eftir kvóta í rússnesku lögsögunni í Barentshafinu.

,,Ætli við endum ekki árið í Barentshafi. Það hefur oft fengist góður afli í desember á þeim slóðum og veðurlag er yfirleitt gott þarna norður frá á þessum árstíma,“ segir Ægir Franzson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir