FréttirSkrá á póstlista

09.07.2016

Átta vopnfirsk ungmenni útskrifuð úr Sjávarútvegsskólanum

,,Reynslan af þessu framtaki var mjög góð og ég reikna því fastlega með að við tökum aftur þátt í þessu samstarfi að ári liðnu. Þá verði öllum grunnskólanemendum, sem eru að fara í 9. bekk, boðin þátttaka,“ segir Fanney Björk Friðriksdóttir, vaktformaður í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði, en hún var ein þeirra sem þátt tóku í undirbúningi og fræðslu ungmenna á Vopnafirði sem nýlega útskrifuðust úr Sjávarútvegsskólanum.

Það var Síldarvinnslan í Neskaupstað sem hafði frumkvæði að stofnun skólans árið 2013 og hefur hann verið starfræktur undanfarin sumur í Fjarðabyggð og á Seyðisfirði. Nú í sumar leiðir Háskólinn á Akureyri ásamt Síldarvinnslunni Sjávarútvegsskólann og er hann starfrækur á sex stöðum á Austurlandi; Vopnafirði, Seyðisfirði, Neskaupstað, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og á Höfn í Hornafirði. Verkefnið er samstarfsverkefni milli Háskólans á Akureyri og sex sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi; HB Granda, Gullbergs, Síldarvinnslunnar, Eskju, Loðnuvinnslunnar og Skinneyjar-Þinganess. Einnig eru vinnuskólar sveitarfélagana með í samstarfinu þar sem nemendurnir sækja Sjávarútvegsskólann í viku á launum í stað þess að fara í vinnuskólann.

Skólanum er ætlað að veita nemendum í sjávarþorpum og nærliggjandi byggðum, sem eru að fara í 9. bekk, tækifæri til að kynnast einni af grundvallaratvinnugreinum Íslands. Ásamt því að kynna þeim fyrir framtíðarmöguleikum í menntun og starfi tengdum sjávarútvegi.

,,Þetta er í fyrsta skipti sem Vopnafjörður er með og því ákváðum við að bjóða einnig nemendum, sem fara í 10. bekk í haust, að taka þátt. Ég á von á því að þessi fræðsla sé komin til að vera og í framtíðinni verði öllum þeim, sem eru á leið í 9. bekk, boðið að vera með,“ segir Fanney Björk en í máli hennar  kemur fram að nemendur fái fræðslu í gegnum fyrirlestra og myndskeið. Áhersla er lögð á að nemendurnir kynnist störfum í sjávarútvegi sem best. Því er mikið af heimsóknum í fyrirtæki sem starfa í sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti. Meðal þess sem nemendur fræðast um er uppsjávarvinnsla, bolfiskvinnsla, framleiðsla á fiskmjöli og -lýsi, fiskiskip, netagerð, fiskmarkaðir og starfsemi og hlutverk Matís og rannsóknarstofa. Þá er farið yfir gæða- og öryggismál í sjávarútvegi.

Nemendur sem luku skólanum á Vopnafirði eru: Borghildur Arnarsdóttir, Mikael Grönvold, Indía Rebekka, Heiðar Snær Ragnarsson, Benedikt Blær, Gígja Björg Höskuldsdóttir, Viktoría Hulda Þorgrímsdóttir og Ísak Aron Víðisson. 

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir