FréttirSkrá á póstlista

09.07.2016

Átta vopnfirsk ungmenni útskrifuð úr Sjávarútvegsskólanum

,,Reynslan af þessu framtaki var mjög góð og ég reikna því fastlega með að við tökum aftur þátt í þessu samstarfi að ári liðnu. Þá verði öllum grunnskólanemendum, sem eru að fara í 9. bekk, boðin þátttaka,“ segir Fanney Björk Friðriksdóttir, vaktformaður í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði, en hún var ein þeirra sem þátt tóku í undirbúningi og fræðslu ungmenna á Vopnafirði sem nýlega útskrifuðust úr Sjávarútvegsskólanum.

Það var Síldarvinnslan í Neskaupstað sem hafði frumkvæði að stofnun skólans árið 2013 og hefur hann verið starfræktur undanfarin sumur í Fjarðabyggð og á Seyðisfirði. Nú í sumar leiðir Háskólinn á Akureyri ásamt Síldarvinnslunni Sjávarútvegsskólann og er hann starfrækur á sex stöðum á Austurlandi; Vopnafirði, Seyðisfirði, Neskaupstað, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og á Höfn í Hornafirði. Verkefnið er samstarfsverkefni milli Háskólans á Akureyri og sex sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi; HB Granda, Gullbergs, Síldarvinnslunnar, Eskju, Loðnuvinnslunnar og Skinneyjar-Þinganess. Einnig eru vinnuskólar sveitarfélagana með í samstarfinu þar sem nemendurnir sækja Sjávarútvegsskólann í viku á launum í stað þess að fara í vinnuskólann.

Skólanum er ætlað að veita nemendum í sjávarþorpum og nærliggjandi byggðum, sem eru að fara í 9. bekk, tækifæri til að kynnast einni af grundvallaratvinnugreinum Íslands. Ásamt því að kynna þeim fyrir framtíðarmöguleikum í menntun og starfi tengdum sjávarútvegi.

,,Þetta er í fyrsta skipti sem Vopnafjörður er með og því ákváðum við að bjóða einnig nemendum, sem fara í 10. bekk í haust, að taka þátt. Ég á von á því að þessi fræðsla sé komin til að vera og í framtíðinni verði öllum þeim, sem eru á leið í 9. bekk, boðið að vera með,“ segir Fanney Björk en í máli hennar  kemur fram að nemendur fái fræðslu í gegnum fyrirlestra og myndskeið. Áhersla er lögð á að nemendurnir kynnist störfum í sjávarútvegi sem best. Því er mikið af heimsóknum í fyrirtæki sem starfa í sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti. Meðal þess sem nemendur fræðast um er uppsjávarvinnsla, bolfiskvinnsla, framleiðsla á fiskmjöli og -lýsi, fiskiskip, netagerð, fiskmarkaðir og starfsemi og hlutverk Matís og rannsóknarstofa. Þá er farið yfir gæða- og öryggismál í sjávarútvegi.

Nemendur sem luku skólanum á Vopnafirði eru: Borghildur Arnarsdóttir, Mikael Grönvold, Indía Rebekka, Heiðar Snær Ragnarsson, Benedikt Blær, Gígja Björg Höskuldsdóttir, Viktoría Hulda Þorgrímsdóttir og Ísak Aron Víðisson. 

 

Nýjustu fréttir

31.12.2019

Gleðilegt ár

24.12.2019

Gleðileg jól

Allar fréttir