FréttirSkrá á póstlista

06.07.2016

Makrílafli að glæðast

Víkingur AK kom til hafnar á Vopnafirði laust upp úr hádegi í dag með um 540 tonna afla. Þetta er afrakstur annarrar veiðiferðar skipsins á makrílveiðum við suðurströnd landsins. Að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra virðist makrílaflinn vera að glæðast, a.m.k. var aflinn nú meiri en í fyrstu veiðiferðinni.

,,Við byrjuðum við tólf mílunar í Breiðamerkurdjúpinu en stutt prufuhol sýndi að hlutfall síldar í aflanum var of mikið. Við færðum okkur því utar með þeim árangri að síldin var ekki til vandræða,“ segir Albert en mikið er af síld við suðurströndina um þessar mundir. Hún heldur sig samt grynnra en makríllinn og virðist vera að grynnka meira á sér ef eitthvað er.

Að sögn Alberts er misjafnt hve togað er lengi hverju sinni.

,,Best er að fá 150 til 200 tonn á stuttum tíma og hífa þá en annars reynum við að toga ekki of lengi til þess að gæði fisksins séu sem mest. Í tregveiði getur það reynst erfitt og aðstæður geta verið misjafnar. Maður hefur lent í því að fá gott hol og svo ekki sporð í því næsta þótt allar forsendur ættu að vera fyrir hendi.“

Samkvæmt upplýsingum skipstjórans er makríllinn af ágætri stærð. Meðalstærðin í veiðiferðinni var 388 grömm og makríllinn fitnar mjög hratt enda nóg um æti. Albert segist búast við því að komast aftur á miðin annað kvöld en þar er fyrir Venus NS.

,,Sem betur fer þá hefur skipunum á makrílveiðum fjölgað síðustu dagana og það auðveldar okkur leitina,“ segir Albert Sveinsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir