FréttirSkrá á póstlista

30.06.2016

Makrílveiðar hafnar

Makrílvertíð sumarsins er hafin og eru bæði uppsjávarveiðiskip HB Granda farin til veiða. Víkingur AK fór frá Akranesi á mánudagsnótt og er nú að veiðum suður af landinu. Venus NS kom á miðin suðaustur af Vestmannaeyjum um miðjan dag í gær. Að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Víkingi, fer vertíðin rólega af stað.

,,Við erum nú um 40 sjómílur suð-suðaustur af Vík í Mýrdal. Það voru nokkur skip komin á makrílveiðar þegar við komum á svæðið en það er rólegt yfir veiðinni enn sem komið er. Við tókum stutt hol í gær og vorum með um 10 tonn. Það var svo aftur kastað í morgun og við vorum að enda við að dæla 120 tonnum af fiski úr trollinu. Aflinn hér er dálítið síldarblandaður og við erum því að færa okkur aðeins vestar í von um að fá þar hreinni makrílafla,“ sagði Albert er rætt var við hann síðdegis í gær. 

Að sögn Alberts höfðu niðurstöður stærðarmælinga úr fyrstu holunum ekki borist honum er rætt var við hann en samkvæmt fréttum frá öðrum skipum þá var algeng meðalvigt um 370 grömm.

Misjafnt er frá ári til árs hvar makrílveiðarnar hefjast en Albert segir að undanfarin ár hafi skip HB Granda oftast byrjað austar eða á svæðinu út af Hornafirði.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir