FréttirSkrá á póstlista

13.06.2016

Fengu ufsa með karfa í kantinum norður af Patró

Ísfisktogarinn Helga María AK er væntanlegur til Reykjavíkur nú síðdegis eftir veiðiferð á Vestfjarðamið. Að sögn Ævars Pálssonar, skipstjóra í veiðiferðinni, er aflinn viðunandi og að uppistöðu til ufsi, karfi og þorskur.

,,Við vorum aðallega að bera okkur eftir ufsa. Það kom gott ufsaskot á Halamiðum strax eftir sjómannadag en síðan fjaraði það út þegar hitaskilin hurfu út á djúpið. Við fundum lítið af ufsa framan af veiðiferðinni en síðan hittum við á ufsa með karfanum í kantinum norður af Patró og aðeins í Víkurálnum,“ segir Ævar.

Er rætt var við skipstjórann var Helga María komin inn í Faxaflóa og nýfarin fyrir jökul í sól og blíðu. Að sögn Ævars er ástandið á Vestfjarðamiðum gott en þar eins og víðar skipti mestu máli að finna hitaskil og vera á veiðisvæðinu á réttum tíma.

,,Fiskurinn þjappast saman í og við skilin þar sem ætið er mest. Það er vandlítið að veiða þorsk á Vestfjarðamiðum eins og staðan er núna. Við vissum af honum í hitaskilunum vestar í kantinum. Ýsa er ekki vandamál enda heldur hún sig grynnra. Það má samt búast við því að hún láti sjá sig á Látragrunninu hvað úr hverju. En hjá okkur snýst lífið um leit að ufsa í veiðanlegu magni og án þess að of mikið veiðist af öðrum fisktegundum með ufsanum,“ sagði Ævar Pálsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir