FréttirSkrá á póstlista

07.06.2016

Fjölmenni á fjölskylduskemmtun HB Granda

Talið er að 10 til 12 þúsund manns hafi lagt leið sína á hátíðarsvæði HB Granda á Norðurgarði á sjómannadaginn. Þar fór fram fjölskylduskemmtun HB Granda en hún er orðinn árlegur viðburður í hátíðarhöldunum sem tengjast Hátíð hafsins í Reykjavík um sjómannadagshelgina.

Að sögn Kristínar Helgu Waage Knútdóttur, aðstoðarmanns forstjóra HB Granda, tókst fjölskylduskemmtunin einstaklega vel í veðurblíðunni.

,,Skemmtidagskráin var virkilega flott. Það var skemmtileg nýjung að fá Sprengjugengið til að framkvæma nokkrar tilraunir fyrir gesti sem vakti mikla lukku. Aðrir sem skemmtu voru Latibær, Lína Langsokkur og Eiríkur Langsokkur skipstjóri og síðan var Sirkus Íslands með atriði á sviði ásamt því að skemmta gangandi gestum. BMX brós sýndu listir sínar á hjólum alla hátíðina og voru síðan með flotta sýningu í lok dagskrárinnar. Þau börn, sem vildu, gátu þá spreytt sig á þrautabrautinni þeirra eftir sýninguna,“ segir Kristín Helga en auk skemmtiatriðanna hafði Víkingur AK 100 einnig mikið aðdráttarafl.

,,Þetta nýjasta skip HB Granda var opið almenningi á meðan hátíðinni stóð og nýttu mjög margir sér tækifærið og skoðuðu skipið. Boðið var upp á myndatöku fyrir börn í brúnni í skipstjórasætinu með viðeigandi höfuðfat og létu fjölmörg börn mynda sig þannig. Myndirnar verða í framhaldinu birtar á Facebook síðu HB Granda,“ segir Kristín Helga.
 
Líkt og venjulega var gestum boðið upp á ýmsar veitingar og nægir þar að nefna fiskisúpu, kökur, kleinuhringi, popp og grillaðar pylsur. Þá gaf HB Grandi börnum blöðrur, blöðrudýr, litabækur og liti. Börnin gátu einnig fengið andlitsmálningu.
 
,,Umgengni gesta var til fyrirmyndar og fjölskylduhátíðin heppnaðist að öllu leyti mjög vel,“ sagði Kristín Helga Waage Knútsdóttir.


Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir