FréttirSkrá á póstlista

31.05.2016

Fjölskylduhátíð HB Granda á sjómannadaginn

Það er orðinn árlegur viðburður að haldin er vegleg fjölskylduskemmtun á athafnasvæði HB Granda á Norðurgarði í Reykjavík á sjómannadaginn. Fjölskylduskemmtunin verður haldin sunnudaginn 5. júní en Hátíð hafsins, sem Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð standa að, verður alla sjómannadagshelgina.

Gamla höfnin í Reykjavík og næsta nágrenni er vettvangur Hátíðar hafsins og verða viðburðir á dagskrá hátíðarinnar haldnir allt frá Hörpu að HB Granda. Hátíðarsvæði HB Granda verður á milli höfuðstöðva félagsins á Norðurgarði og frystigeymslunnar Ísbjarnarins og verður það opnað kl. 13 á sjómannadeginum. Gestum verður boðið að bragða á ýmiss konar fiski, súpu, pylsum, kökum og kleinum og fleira góðgæti.

,,Við verðum með andlitsmálun og blöðrudýr fyrir börnin og frábærir skemmtikraftar troða upp og munu skemmta hátíðargestum,“ segir Kristín Helga Waage Knútdóttir, aðstoðarmaður forstjóra, en hún er ein þeirra sem komið hafa að undirbúningi hátíðarinnar af hálfu HB Granda.

Dagskrá hátíðarinnar á athafnasvæði HB Granda verður annars sem hér segir:

BMX Brós verða á svæðinu að sýna listir sínar

13:00 Hátíðarsvæðið opnað

14:00 Sprengjugengið

14:30 Latibær

15:00 Sirkus Íslands

15:30 Lína Langsokkur og Eiríkur Langsokkur skipstjóri

16:00 Dagskrá lýkur.

Auk þessa verður nýtt uppsjávarskip HB Granda, Víkingur AK 100, í höfn í Reykjavík og verður almenningi gefinn kostur á að skoða það á sjómannadeginum.

Á undanförnum árum hafa þúsundir manna tekið þátt í Hátíð hafsins með þeim afleiðingum að umferð ökutækja um hafnarsvæðið hefur gengið ákaflega hægt fyrir sig. Því er skynsamlegt að legga bifreiðum á bílastæðum utan hafnarsvæðisins og fara síðasta spölinn fótgangandi eða taka sér far með strætisvögnum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir