FréttirSkrá á póstlista

23.05.2016

Fjölmenni í Esjugöngu HB Granda

Um 150 manns tóku þátt í fyrstu Esjugöngu HB Granda sem fram fór um helgina. Starfsfólki félagsins var boðið í gönguna og voru rútuferðir í boði fyrir þátttakendur frá starfsstöðvum félagsins á Akranesi og Norðurgarði í Reykjavík. Standa vonir til að fljótlega verði hægt endurtaka leikinn enda þótti dagurinn heppnast eins og best verður á kosið.

Að sögn Kristínar Helgu Waage Knútsdóttur, aðstoðarmanns forstjóra HB Granda, var það Gísli Sigmarsson, tæknistjóri HB Granda í Reykjavík, sem átti hugmyndina að Esjugöngunni eftir að starfsfólk hlustaði á fyrirlestur um heilsueflingu í mars sl., og sá hann sömuleiðis um skipulagningu dagsins í samvinnu við Kristínu Helgu.

,,Veðrið hefði ekki getað verið betra, sól og blíða, og útsýnið frábært. Við buðum upp á tvær leiðir undir stjórn leiðsögumanna frá Esjustofu. Þeir, sem ekki eru vanir að ganga á fjöll, gátu gengið um skógræktarsvæðið að Mógilsá. Það voru einkum fjölskyldur með minni börn sem völdu þessa leið. Fyrir þá, sem eru vanir og treystu sér til, var gengið að Þverfellshorni upp að steini. Stór hópur fór þá leið. Öllum þátttakendum var boðið að taka með sér létt nesti  til að borða á leiðinni sem og orkudrykk og vatnsflösku,“ segir Kristín Helga en hún upplýsir að eftir að göngumenn skiluðu sér aftur niður að Esjustofu hafi verið boðið upp á grillaðar pylsur, speltbollur og hafraklatta. Veitingunum var skolað niður með ávaxtasafa og vatni við harmonikkuundirleik.
 
,,Allir, sem ég talaði við, voru virkilega ánægðir með daginn og fannst þetta frábær hugmynd og flott framtak,“ sagði Kristín Helga Waage Knútsdóttir. 
 

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir