FréttirSkrá á póstlista

20.05.2016

Vona að ufsinn þétti sig við ísröndina

Ísfisktogarinn Ásbjörn RE er nú að veiðum á Vestfjarðamiðum og er við náðum tali af skipstjóranum, Friðleifi Einarssyni, var togarinn staddur á Halamiðum vestur við ísröndina sem er á milli Íslands og Grænlands. Að sögn skipstjórans er vonast til að ufsi þétti sig í æti í kuldaskilunum áður en veiðiferðin er úti.

Ásbjörn fór frá Reykjavík á þriðjudag og byrjaði á gullkarfaveiðum á hinum hefðbundu heimamiðum HB Grandatogaranna út af Reykjanesi.

,,Við fengum góðan afla áður en ákveðið var að halda norður á Vestfjarðamið. Við vorum komnir hingað á Halann upp úr hádegi í gær og enn sem komið er hefur verið frekar rólegt yfir aflabrögðunum. Við erum fyrst og fremst að eltast við ufsa en það er þessi eilífi eltingarleikur allra togara um þessar mundir. Hér hafa komið ágæt ufsaskot af og til og við vonum bara það besta,“ segir Friðleifur en er rætt var við hann var Ásbjörn einn á svæðinu.

,,Gnúpur GK er hér grynnra, uppi á Barðinu, en aðrir togarar eru ekki hér nærri,“ sagði Friðleifur Einarsson.

Lítið er um meðafla með ufsanum þar sem Ásbjörn er nú. Það er helst að vart verði við þorsk og svo slæðist stöku ýsa og nokkur kolablöð með í trollið.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir