FréttirSkrá á póstlista

18.05.2016

Veiða kolmunnann vestan við Færeyjar

Víkingur AK er nú á leiðinni til Vopnafjarðar með fullfermi af kolmunna. Aflinn fékkst að mestu vestan við Færeyjar en þar er nú mikill fjöldi skipa að veiðum.

,,Það er ekki beint hægt að segja að það sé kraftur í veiðunum en þetta er nokkuð jafnt. Við erum yfirleitt að fá um 300 til 400 tonn eftir 18 tíma hol eða svipaðan afla og aðrir á veiðislóðinni,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi, nú síðdegis. Hann segir veiðiferðina hafa staðið í rúma viku en langar siglingar eru til og frá miðunum.

Að sögn Alberts byrjaðu þeir veiðarnar austan við Færeyjar en færði sig síðan yfir eftir að fréttir bárust af aflabrögðum þar.

,,Kolmunninn virðist eitthvað vera að síga norður eftir en við erum reyndar að fá aflann mikið til á sömu blettunum. Fiskurinn þéttir sig í straumskilum, væntanlega vegna ætis, og það er stundum þröngt á þingi á tiltölulega litlum svæðum vegna hins mikla fjölda skipa sem eru á þessum veiðum,“ sagði Albert Sveinsson.

Farið er að ganga á kolmunnakvóta skipa HB Granda en Albert reiknar með því að fara í eina veiðiferð fyrir sjómannadag. Venus NS er hins vegar á leiðinni í eftirlit í slipp. Eftirstöðvar kolmunnakvótans verða síðan nýttar vegna hugsanlegs meðafla á makríl- og síldveiðum í sumar og haust eða með beinum kolmunnaveiðum í lok ársins.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir