FréttirSkrá á póstlista

07.05.2016

Kolmunnaveiðar ganga vel

Venus NS er kominn á kolmunnaveiðar að nýju eftir löndun á Vopnafirði um miðja vikuna. Kolmunnamiðin eru nú austur af Færeyjum og að sögn Róberts Axelssonar, sem var skipstjóri í síðustu veiðiferð, er göngumynstur kolmunnans nú mjög svipað því sem var á vertíðinni í fyrra.

,,Við vorum að veiðum suðaustur af eyjunum í veiðiferðinni og aflabrögðin voru ágæt. Aflinn var rúmlega 2.500 tonn eftir tæpa fimm daga á veiðum. Það fara svo hátt í þrír sólarhringar í siglingar til og frá veiðisvæðinu og í heildina var því veiðiferðin rúmlega ein vika,“ segir Róbert.

Þrátt fyrir að skipið hafi verið komið til hafnar á Vopnafirði aðfararnótt sl. miðvikudags þá var það komið aftur á miðin í gærmorgun.

,,Þeir eru fljótir að landa enda er hörkuduglegt lið í löndunargenginu á Vopnafirði,“ segir Róbert Axelsson.

Þess má geta að Venus fer í slipp á Akureyri eftir yfirstandandi veiðiferð. Um er að ræða ábyrgðarskoðun samkvæmt smíðasamningi.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir