FréttirSkrá á póstlista

25.04.2016

Fá góða kolmunnaveiði suður af Færeyjum

,,Veiðin er fín og ekkert yfir henni að kvarta. Við höfum oftast náð að kasta tvisvar sinnum á sólarhring og trollið er dregið 12 til 15 tíma í senn. Heilt yfir er þetta ágætur fiskur, sem við eru að fá, en það kemur fyrir að aflinn sé blandaður með smærri fiski.“

Þetta segir Róbert Axelsson, skipstjóri í síðustu veiðiferð Venusar NS á kolmunnamiðin suður af Færeyjum, en Venus kom til Vopnafjarðar í morgun með um 2.300 tonn af kolmunna. Aflinn fékkst á um fjórum veiðidögum.

Að sögn Róberts skilar kolmunninn sér norður í færeysku lögsöguna á svipuðum slóðum og í fyrra en það er þó ekkert sjálfgefið.

,,Stundum hefur gangan skilað sér norður eftir mun austar og stundum er hún vestar og þá nær okkar miðum. Mín vegna mætti kolmunninn ganga vestar því heimsiglingin, um 400 mílur að þessu sinni, tók okkur um 30 tíma,“ segir Róbert en hann segir litlar dægursveiflur vera í veiðinni.

,,Það er eins og að innkoman í trollbelginn dali aðeins upp úr miðnættinu og undir morguninn en annars er hún svipuð allan sólarhringinn,“ segir Róbert Axelsson. 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir