FréttirSkrá á póstlista

20.04.2016

Lentu í góðu ufsaskoti austan við Djúpkrók

,,Veiðin hér á Vestfjarðamiðum fór frekar rólega af stað en síðan lentum við í góðu ufsaskoti fyrir austan Djúpkrók. Við vorum þrír á Kögurgrunni þegar ufsinn fór að gefa sig til en eftir það fjölgaði skipum hratt. Það er fyrst nú að ufsaveiðin virðist vera að þorna upp en hér hafa verið sjö togarar að veiðum í dag.“

Þetta sagði Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK, er tal náðist af honum nú undir kvöldið. Helga María fór frá Reykjavík sl. fimmtudagskvöld en veiðiferðin hófst á SV-miðum.

,,Það var ágæt karfaveiði á Fjöllunum og ufsavottur með en hingað norður vorum við svo komnir snemma á mánudagsmorgun.

 Við höfum verið á Kögurgrunni allan tímann. Til að byrja með var lítið að hafa en svo hellist ufsinn yfir og við höfum sennilega náð að veiða 50 tonn af ufsa hér fyrir norðan. Það hefur lítið verið um þorsk en þorskur og ýsa hafa komið með ufsanum sem meðafli. Karfa virðist ekki vera að finna á Vestfjarðamiðum um þessar mundir. Það var karfi í Víkurálnum á dögunum en ég veit ekki hvort sótt hafi verið í hann,“ segir Heimir Guðbjörnsson en er rætt var við hann vantaði um 15 tonn eða 50 kör upp á fullfermi.

Helga María var á dögunum frá veiðum um mánaðarskeið vegna slipptöku. Skipt var um afgasketil, skrúfan yfirfarin og skipið öxuldregið auk hefðbundins viðhalds.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir