FréttirSkrá á póstlista

14.04.2016

Fá um 400 tonn af kolmunna í holi

Kolmunnaveiðar hófust strax eftir páska og eru íslensku skipin nú að veiðum djúpt suður af Færeyjum. Að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Víkingi AK, er tekið eitt hol á sólarhring og aflinn í þeim hefur verið um 400 tonn af ágætum fiski.

-- Það er mikið af skipum hérna, mest Rússar og Færeyingar, og svo hafa íslensku skipin nýtt sér sínar heimildir. Hér mega vera 12 íslensk skip að veiðum hverju sinni, segir Albert en að hans sögn hefur enginn verulegur kraftur verið í kolmunnaveiðunum enn sem komið er.

-- Menn bíða þess að meira af kolmunna gangi norður fyrir línuna á milli færeysku landhelginnar og ESB lögsögunnar en eins og staðan er núna þá vantar meiri fisk hingað norður eftir.

Víkingur fór úr höfn í Reykjavík sl. sunnudagskvöld og er rætt var við Albert var hann búinn að taka tvo 400 tonna hol. Staðan er svipuð hjá Venusi NS, sem fór til veiða fyrir viku, og aflinn í síðasta holi var um 400 tonn. Að sögn Alberts verður hann með skipið á kolmunna a.m.k. fram að sjómannadegi en kvótastaðan mun síðan ráða því hvort framhald verður á kolmunnaveiðum í júní. Makrílveiðar hefjast svo í lok júní eða í byrjun júlí.   

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir