FréttirSkrá á póstlista

08.04.2016

Eiga 26 þúsund tonn eftir af kolmunnakvótanum

Venus NS og Víkingur AK fara senn til kolmunnaveiða en eftir eru 26.150 tonn af kolmunnakvóta ársins. Þetta er ljóst eftir að sjávarútvegsráðherra ákvað að bæta 39.000 tonnum við heildarkvótann en þar af koma 7.700 tonn í hlut uppsjávarskipa HB Granda.

Að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarskipa félagsins, hafa verið veidd rúmlega 12.800 tonn af kolmunnakvóta ársins. Heildarúthutunin til félagsins á árinu er 32.424 tonn. Að teknu tilliti til heimilda um flutning aflamarks á milli ára eru eftirstöðvar kolmunnakvótans 26.150 tonn sem fyrr segir.

Venus og Víkingur hafa verið í höfn á Akranesi frá því að loðnuvertíð lauk fyrir páska. Þau eru nú í Reykjavík. Loðnuvertíðin hófst upp úr miðjum febrúarmánuði sl. og var fyrsta aflanum landað úr Venusi á Vopnafirði 22. febrúar. Vertíðinni lauk svo með síðustu löndun Víkings þann 19. mars sl. Alls veiddu skipin 16.700 tonn af loðnu á vertíðinni. Rúmlega 12.500 tonnum var landað til vinnslu á Vopnafirði og ríflega 4.100 tonnum á Akranesi. Reynt var að vinna allan aflann til manneldis en eðli málsins samkvæmt fer jafnan hluti landaðs afla til framleiðslu á fiskmjöli og -lýsi.

Því er við þetta að bæta að norsk skip lönduðu rúmlega 1.200 tonnum af loðnu á Vopnafirði á vertíðinni. Þar af tókst að frysta um 790 tonn til manneldis.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir