FréttirSkrá á póstlista

06.04.2016

Góðar undirtektir við blóðsöfnun á Grandanum

Blóðbíllinn er í dag á athafnasvæði HB Granda á Norðurgarði með það að markmiði að safna blóði fyrir Blóðbankann og fá nýja virka blóðgjafa í hópinn. Að sögn Jórunnar Frímannsdóttur, deildarstjóra hjá Blóðbankanum, hefur blóðsöfnunin gengið vel og  undirtektir starfsmanna HB Granda og annarra fyrirtækja á Grandanum hafa verið góðar.

Þetta er í annað skiptið sem Blóðbíllinn kemur í söfnunarleiðangur á athafnasvæði HB Granda og að sögn Kristínar Helgu Waage Knútsdóttur, aðstoðarmanns forstjóra, er það von stjórnenda að söfnun sem þessi verði fastur liður á komandi árum. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, er virkur blóðgjafi og hann segist hafa notært sér þjónustu Blóðbílsins og gefið blóð í 69. skipti.

,,Það var að sjálfsögðu til mikilla þæginda fyrir mig persónulega að fá Blóðbílinn að Norðurgarði. Það sparaði mér ferðina í Blóðbankann en það er sá banki sem gefur mestu ávöxtunina, að mínu mati, eða lífið sjálft í mörgum tilfellum,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Jórunn Frímannsdóttir segir að Blóðbíllinn sé í stöðugri notkun allt árið ef undan er skilið sex vikna sumarleyfi og stórhátíðar.

,,Við erum ágætlega sett með blóð í augnablikinu en það þarf ekki nema eina stóra blæðingu til að setja allt úr skorðum hjá okkur. Við söfnun blóði því árið um kring og reynum að fara á þá staði úti á landi sem við treystum bílnum til að komast á. Því miður komumst við ekki á Austfirði og Vestfirði vegna vegalengda og vega og við þorum heldur ekki að bjóða bílnum upp á ferð með Herjólfi til Vestmanneyja. Þangað förum við flugleiðis í næstu viku til blóðsöfnunar,“ segir Jórunn Frímannsdóttir en samkvæmt upplýsingum hennar eru virkir blóðgjafar nú á milli 8.000 og 9.000 talsins á landinu öllu. Þörf er fyrir 2.000 nýja blóðgjafa árlega og vonandi mun eitthvað bætast í þann hóp eftir heimsóknina á athafnasvæði HB Granda í dag.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir