FréttirSkrá á póstlista

30.03.2016

Landburður af fiski

Mjög góð veiði hefur verið undanfarnar vikur suður og vestur af Reykjanesi. Það eru einkum gullkarfi og þorskur sem bera veiðina uppi en góð ufsaveiði var einnig á tímabili. Fjöldi togara og togbáta eru nú að veiðum allt frá Vestmannaeyjum og vestur fyrir Reykjanes og að sögn Eiríks Jónssonar, skipstjóra á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK, hefur verið landburður af fiski þær vikur sem aflahrotan hefur staðið.

Allir togarar HB Granda eru nú á veiðum suður af Reykjanesi utan hvað verið er að landa úr Þerney RE í Reykjavík og Helga María AK er þar í slipp. Fjöldi annarra skipa er að veiðum á svipuðum slóðum og HB Granda togararnir hafa hadið sig.

,,Það þarf enginn að fara eftir þorski á Vestfjarðamið þessa dagana enda er mjög mikið af vænum þorski á öllu vertíðarsvæðinu frá Vestmannaeyjum vestur fyrir Reykjanes. Við fórum út á mánudag og höfum verið að veiðum á Eldeyjarbanka og Fjöllunum en nú erum við komnir á Tána eða á Selvogsbankann. Það hefur verið mokveiði af gullkarfa og þorski en ufsaveiðin hefur heldur tregast. Hún var hins vegar góð í nokkrar vikur,“ segir Eiríkur en að hans sögn var meðalvigtin á þorskinum hjá Sturlaugi H. Böðvarssyni tæplega 4,5 kíló í síðasta túr.

Að sögn Eiríks hefur veðrið leikið við sjómenn í vetur og hann segir viðbrigðin mikil í samanburði við tvo eða þrjá síðustu vetur.

,,Það er vara hægt að tala um tafir frá veiðum vegna veðurs í vetur en til samanburðar má nefna að við þurftum hvað eftir annað að halda sjó vegna stórviðra síðustu vetur. Frátafir voru næstum því jafn tíðar og eiginlegar veiðar,“ segir Eiríkur Jónsson.

Sturlaugur H. Böðvarsson á bókaðan löndunardag nk. föstudag en sama dag er gert ráð fyrir millilöndun úr frystitogaranum Höfrungi III AK sem þó hefur ekki verið lengi að veiðum. Frystitogarinn Örfirisey RE fór inn til millilöndunar fyrir páska og skipið ætti því að verða með drjúgan afla þegar veiðiferðinni lýkur.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir