FréttirSkrá á póstlista

30.03.2016

Hætt við þátttöku í Brussel

HB Grandi hf. hefur ákveðið að hætta við þátttöku í árlegri alþjóðlegri sjávarútvegssýningu sem haldin verður í Brussel dagana 26.-28. apríl næstkomandi. Áætlað var að senda 27 starfsmenn félagsins á sýninguna sem er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum en félagið hefur lagt vaxandi áherslu á þátttöku í sýningunni með stækkandi sýningarbás á undanförnum árum. Helsti tilgangur með þátttöku í sýningunni er að kynna kaupendum þær afurðir sem félagið hefur að bjóða og efla samskipti við afurðakaupendur frá öllum heimshornum.

Að vel ígrunduðu máli telja stjórnendur félagsins ekki forsvaranlegt að senda starfsmenn til Brussel að þessu sinni þar sem óvíst er hvort hægt verði að tryggja öryggi þeirra með viðunandi hætti eftir nýlegar hryðjuverkaárásir í borginni. Auk þess má leiða að því líkum að slík ferð gæti valdið starfsmönnum og fjölskyldum þeirra óþægindum og kvíða. HB Grandi er í góðu sambandi við kaupendur sína um allan heim og mun styrkja þau tengsl með öðrum hætti en þátttöku í Brussel í ár. Félagið gerir ráð fyrir að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið að ári liðnu.

 

 

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir