FréttirSkrá á póstlista

17.03.2016

Vestanganga bjargaði vertíðarlokunum

Venus NS kom til Vopnafjarðar um kvöldmatarleytið í gær með um 2.300 tonn af loðnu. Aflinn fékkst í Breiðafirði sl. sunnudag og þriðjudag eða þá daga sem hægt var að vera að veiðum vegna veðurs.

Að sögn Guðlaugs Jónssonar skipstjóra á Venusi kom vestanganga loðnu á miðin um helgina og segja má að sú ganga hafi bjargað vertíðarlokunum.

,,Það er erfitt að segja til um magnið eða ástandið á miðunum vegna ótíðarinnar. Þetta var hins vegar mjög góð loðna með góðum hrognaþroska og það var áberandi meira kvensíli í aflanum úr þessari vestangöngu en við fengum vikuna á undan,“ segir Guðlaugur en að hans sögn er loðnuvertíðinni nú lokið hvað Venus varðar. Víkingur AK, sem landaði síðast á Akranesi, er nú í Breiðafirði og mun hann sjá um að veiða eftirstöðvar kvóta HB Granda.

Guðlaugur reiknar með að lokið verði við að landa úr Venusi seinni hluta dags á morgun. Óvíst sé hvað taki við. Annað hvort verði farið í snemmbúið páskafrí eða eina kolmunnaveiðiferð fyrir páska. Það skýrist á morgun.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir