FréttirSkrá á póstlista

14.03.2016

Veðrið í aðalhlutverki á loðnumiðunum

Um 12 skip bíða þess nú í vari við norðanvert Snæfellsnes að veðrið gangi niður þannig að hægt verði að leita að loðnu í veiðanlegu magni á Breiðafirði. Skipin eru úti af Ólafsvík og að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Víkingi AK, ætti að viðra vel til veiða seint í kvöld og nótt.

,,Við lönduðum síðast á Akranesi og komum hingað í Breiðafjörðinn í gær. Þá var loðna hér í miðjum firðinum og við náðum að kasta tvisvar áður en vitlaust veður skall á. Við vorum með um 550 tonn af loðnu í öðru kastinu en misstum hitt þar sem að nótapokinn rifnaði,“ segir Albert en að hans sögn er veðrið í algjöru aðalhlutverki á loðnumiðunum um þessar mundir. Hver lægðin af fætur annarri hafi dunið yfir og ekki sé nóg með að veðrið sé slæmt heldur hafi sjólag verið með versta móti þann tíma sem vindur hafi gengið niður.

Veðurhorfur næstu dagana eru ekkert sérstakar fyrir Breiðafjörð en Albert bindur vonir við að það gefi til veiða inn á milli.

,,Það verður fínt veður í nótt en fram að þessu hefur ekki verið sérstök veiði á nóttinni. Það er þó að birta og daginn er tekið að lengja þannig að það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn,“ sagði Albert Sveinsson.

Loðnuhrogn eru nú fryst á Vopnafirði og Akranesi á vegum HB Granda. Að sögn Gunnars Hermannssonar, vinnslustjóra í hrognavinnslunni á Akranesi, er þar búið að taka við tveimur loðnuförmum frá Venusi NS og einum frá Víkingi. Vinnslan hefur gengið vel. Afkastagetan í frystingunni er rúmlega 100 tonn af hrognum á klukkustund og þegar mest er að gera er starfsmannafjöldinn í hrognavinnslunni um 100 manns.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir