FréttirSkrá á póstlista

08.03.2016

Loðnuhrogn fryst á Akranesi

Loðnuhrognaskurður og -frysting hefst á Akranesi í dag eftir að Venus NS kom þangað með tæplega 900 tonna afla. Loðnan fékkst í þremur köstum norður undir Snæfellsnesi í fyrradag en í gær var engin veiði vegna brælu.

,,Við vorum að fara frá Akranesi og stefnum á Sæfellsnesið þar sem nokkur skip eru að kasta á loðnu,“ sagði Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Venusi, er tal náðist af honum. Að sögn Guðlaugs er ómögulegt að spá fyrir um framhald veiðanna nú þegar nokkrir dagar ættu að vera eftir af vertíðinni miðað við reynslu fyrri ára.

,,Það er ekki mikið að sjá af loðnu í Faxaflóa. Við fengum þokkalegustu veiði í eina þrjá daga en síðan brældi í gær og það var ekki hægt að stunda veiðarnar. Loðnan var þá komin á grunnið við Snæfellsnes og allt austur á Mýrar og vegna brælunnar var ekki hægt að eiga við hana.“

Víkingur AK er nú fyrir norðan land á leið á miðin við Snæfellsnes auk þess sem athugað er hvort vart verði við loðnu á leiðinni. Albert Sveinsson skipstjóri býst við því að skipið verði komið á miðin við Snæfellsnes fyrir hádegi á morgun.

,,Við enduðum veiðar í síðasta túr um 30 mílur beint vestur af Akranesi en nú er loðnan komin norður undir Snæfellsnes. Maður er að vonast eftir því að geta kastað nótinni eitthvað á morgun en síðan er spáð brælu og framhaldið er í algjörri óvissu,“ segir Albert Sveinsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir