FréttirSkrá á póstlista

04.03.2016

Loðnuhrognafrysting hafin á Vopnafirði

Loðnuhrognafrysting er hafin hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði. Þar var byrjað að skera loðnu úr afla Venusar NS í fyrrinótt en hrognafyllingin í loðnunni var þá um 20%.

Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði, er unnið á vöktum allan sólarhringinn við loðnuvinnsluna. Afkastageta verksmiðjunnar er um 40 tonn á tímann þegar verið er að skera loðnu og frysta hrogn en áður en hrognafrystingin hófst var verið að frysta heila loðnu fyrir Japansmarkaðinn.

,,Það vantar enn nokkuð upp á að loðnuhrognin nái þeim þroska sem japanski markaðurinn er að sækjast eftir en hlutirnir gerast hratt þessa dagana og við erum að vona að loðnan, sem Víkingur AK er nú að veiða fyrir vestan Reykjanes, verði eins og best verður á kosið,“ segir Magnús en hann kveður ómögulegt að spá fyrir um framhaldið. Menn voni að vertíðin standi a.m.k. fram í miðjan þennan mánuð og að veður haldist gott.

Í morgun var Víkingur kominn með rúmlega 1.000 tonn af loðnu og þá var enn verið að landa úr Venusi á Vopnafirði.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir