FréttirSkrá á póstlista

22.02.2016

Þúsund tonn af loðnu til Vopnafjarðar

Venus NS kom til heimahafnar á Vopnafirði í hádeginu í dag með um þúsund tonn af loðnu sem fer til frystingar í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á staðnum. Þetta er fyrsta loðnan sem skip HB Granda koma með til Vopnafjarðar á vertíðinni sem hefst óvenju seint að þessu sinni.

,,Við fengum þessa loðnu í þremur köstum við Ingólfshöfða. Við vorum tiltölulega stutt á miðunum, komum í fyrrinótt og vorum lagðir af stað til Vopnafjarðar um áttaleytið í gærkvöldi,“ sagði Guðlaugur Jónsson skipstjóri ef við ræddum við hann um miðjan dag. Löndun var þá hafin en ekki höfðu borist spurnir af því hve hrognafylling í loðnunni var mikil.

,,Þetta er góð loðna, um 40 stykki í kílóinu. Við fengum aflann grunnt við Ingólfshöfðann eða á um 20 faðma dýpi. Það er mikill hraði á loðnugöngunni og skipin eru nú að veiðum töluvert vestar,“ segir Guðlaugur Jónsson.

Meðal þeirra skipa, sem verið hafa að veiðum, er Víkingur AK og er hann lagður af stað til hafnar á Vopnafirði með afla.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir