FréttirSkrá á póstlista

20.02.2016

Leitað að loðnu við Hrollaugseyjar

,,Við komum hingað í nótt sem leið og þá lóðaði strax á eitthvað ,,ryk.“ Þannig hefur það verið í dag. Það er loðna hér en hún er í mjög gisnum torfum. Fimm skip eru við loðnuleit á svæðinu en það hefur enginn kastað ennþá,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK, er rætt var við hann síðdegis í gær.

Allar horfur eru á að loðnuvertíðin verði stutt að þessu sinni. Útgefinn kvóti til íslenskra skipa er ekki nema 100 þúsund tonn og Hafrannsóknastofnun mælir gegn því að endanlegur kvóti verði aukinn á vertíðinni. Samkvæmt upplýsingum Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarskipa HB Granda, koma því rúmlega 18.000 tonn af loðnu í hlut Víkings og Venusar NS á vertíðinni.

Að sögn Alberts Sveinssonar hefur verið mjög leiðinlegt veður á miðunum, hvasst og mikil ölduhæð, en horfur gætu verið betri með norðanáttinni um helgina.

,,Við höfum heyrt að norsku skipin, sem eru austan við Stokksnes, hafi eitthvað verið að kasta en loðnan á því svæði var orðin mjög smá fyrr í vikunni. Íslensk skip köstuðu eitthvað við Stokksnes en aflinn var lítill. Það gerist væntanlega ekkert fyrr en loðnan þéttir sig hér uppi á grunnunum og stundum þarf bara ein fallaskil til að það gerist,“ sagði Albert Sveinsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir