FréttirSkrá á póstlista

17.02.2016

Svartur karfi í afla Ottós N. Þorlákssonar RE

Um miðja sl. viku urðu starfsmenn í fiskmóttöku HB Granda í fiskiðjuverinu á Norðurgarði í Reykjavík varir við harla óvenjulegan fisk. Um var að ræða svartan karfa sem leyndist í afla ísfisktogarans Ottós N. Þorlákssonar RE.

Vegna þessa var haft samband við Kristján Kristinsson, fiskifræðing hjá Hafrannsóknastofnum, sem er einn sérfræðinga stofnunarinnar á sviði karfarannsókna. Sjálfur sagðist Kristján ekki fyrr hafa séð svartan karfa en eftir að hafa ráðfært sig við annan sérfræðing hjá Hafrannsóknastofnun, Jónbjörn Pálsson, hafi  komið í ljós að svarta litarafbrigðið sé ekki óþekkt þótt sjaldgæft sé.

,,Karfi sem þessi hefur komið á borð okkar áður en þetta er þó dekksti karfi sem Jónbjörn hefur séð. Í texta sem hann skrifaði árið 2013, þegar við fengum svipaða fyrirspurn um svona dökkan karfa, segir m.a.: 

,,Litur fiskanna fer eftir litfrumum í roðinu, en það eru sérhæfðar frumur sem innihalda litarefni og efni sem endurvarpar ljósi. Í litfrumunum eru sérstök líffæri sem bera litkornin og getur þetta líffæri dregist saman eða þanist út innan litfrumunnar. Þegar líffærið dregst saman dofnar liturinn, en styrkur litarins vex eftir því sem líffærið þenst út. Það er misjafnt eftir fisktegundum hversu virk þessi líffæri eru. Þannig er gullkarfinn að segja má alltaf eins á litinn, en t.d. þorskur er mun breytilegri að lit.
 
Öðru hvoru finnast fiskar með afbrigðilegu litarfari. Þetta er talið stafa af erfðargalla sem veldur því að litfrumurnar hafa ekki litkorn í réttum lit, eða að þau vantar. 
 
Þeir karfar sem ég hef séð með afbrigðilegt litarfar hafa ýmist verið einlitir gráir eða tvílitir, svona dökkgráir á baki en rauðir á kviði. Á þessum tvílitu er eins og litfrumurnar á neðri hluta bolsins séu í lagi en þær á efri hlutanum gallaðar."

Svo segir í texta Jónbjörns Pálssonar en með honum var verið að svara fyrirspurn með mynd af tvílitum karfa. Þótt ekki sé búið að rannsaka svarta karfann úr Norðurgarði hjá Hafrannsóknastofnun er nærtækt að ætla að litfrumur á bolnum séu allar gallaðar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir