FréttirSkrá á póstlista

16.02.2016

Marshallhúsið verður deigla menningar og lista

Það styttist í að hið svokallaða Marshallhús á Norðurgarði í Reykjavík fá nýtt og spennandi hlutverk. Þar sem áður var bræddur fiskur til mjölframleiðslu verður framvegis deigla menningar og lista. Samningur þess efnis var undirritaður sl. föstudag og stefnt er að því að listastarfsemi geti hafist í húsinu að loknum endurbótum með haustinu.

Samkvæmt samkomulagi HB Granda, sem á húsnæðið, og Reykjavíkurborgar tekur borgin þrjár efstu hæðir hússins á leigu til 15 ára. Aðstaðan verður síðan leigð út til Nýlistasafnsins, i8 Gallerýs, Kling og Bang Gallerís og Stúdíó Reykjavíkur en á vegum þess mun Ólafur Elíasson starfrækja vinnustofu í Marshallhúsinu. Á jarðhæðinni verður síðan starfræktur veitingastaður þar sem sérstök áhersla verður lögð á rétti úr sjávarfangi.

Gengið var frá samningum vegna þessa menningarverkefnis sl. föstudag. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, skrifaði undir samningana fyrir hönd eigenda hússins og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri skrifaði undir fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Viðstaddir voru fulltrúar HB Granda, listamannanna, Kurt og Pí arkitekta, sem sáu um endurhönnun á húsnæðinu, og fjölmiðla auk annarra góðra gesta.

Vilhjálmur Vilhjálmsson sagði við þetta tækifæri að vel færi á því að starfsemi HB Granda á Norðurgarði, sem byggði á grunnatvinnuvegi landsins, væri staðsett á milli útilistaverksins Þúfu eftir Ólöfu Nordal og væntanlegrar menningarstarfsemi í Marshallhúsinu.

,,Húsið var tekið í notkun sem síldarverksmiðja árið 1950 og var það að hluta til byggt fyrir fé úr svokallaðri Marshallaðstoð. Við hættum að bræða þar bein og slóg 30. apríl 2009 enda voru tæki og tól þá orðin úr sér gengin. Árið 2013 var síðan hreinsað innan úr húsinu og hefur það staðið autt síðan. Haustið 2014 komu Börkur, Ásmundur og Steinþór frá Kurt og Pí arktitektum til fundar við forráðamenn HB Granda og kynntu þeim þær hugmyndir sínar um notkun hússins sem nú eru að verða að veruleika,“ segir Vilhjálmur en hann segir næsta skref vera það að hefjast handa við að gera húsið tilbúið fyrir starfsemina en þeirri vinnu muni væntanlega ljúka seint í haust.

 


Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir