FréttirSkrá á póstlista

10.02.2016

Ágætur kolmunnaafli austast í færeysku lögsögunni

,,Við lukum veiðunum í morgun austast í færeysku lögsögunni, vel suðaustur af Færeyjum. Þar fékkst töluvert betri afli en við höfum fengið annars staðar en fiskurinn var smærri. Annars var reytingsafli víða á mjög stóru hafsvæði og einstaka daga fékkst mjög stór og góður kolmunni.“

Þetta sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK, er rætt var við hann nú síðdegis. Víkingur var þá staddur um 35 sjómílur suðaustur af Akrabergi á Suðurey, syðsta odda Færeyja, og var förinni heitið til Vopnafjarðar. Þangað reiknaði Albert með að vera kominn nk. föstudagsmorgun.

Að sögn Alberts hefur veiðiferðin staðið í níu sólarhringa og á þeim tíma hafa verið tekin níu hol. Áætlaður afli er um 2.500 tonn.

,,Þetta eru oftast um 20 tíma hol og við hífum á daginn þegar minnstur kraftur er í veiðinni. Kolmunninn er á suðurleið til hrygningar og það verður mjög víða vart við hann, allt frá því norðarlega í færeysku lögsögunni og suður um í þá skosku. Þar eru mörg skip að veiðum. Hér, þar sem við höfum mátt veiða, hafa verið nokkur skip og í morgun voru þrjú önnur íslensk skip að veiðum á svipuðum slóðum og við. Þau eru tvö eftir núna,“ segir Albert en þetta er önnur veiðiferð skipsins eftir að það kom nýtt til landsins frá Tyrklandi fyrir sl. jól. 

,,Venus NS er nú í löndun á Vopnafirði og næst verður farið til loðnuveiða. Það standa enn yfir rannsóknir á útbreiðslu loðnu fyrir austan land en það hlýtur að styttast í að endanlegur loðnukvóti verði gefinn út. Við eigum eftir að fara eftir nótunum suður til Reykjavíkur og eftir það er okkur ekkert að vanbúnaði,“ segir Albert Sveinsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir