FréttirSkrá á póstlista

05.02.2016

Um 130 tonn flokkuð í Svani á fyrstu þremur mánuðunum

Á tímabilinu október til desember í fyrra, eftir að HB Grandi tók flokkunarstöðina Svan formlega í notkun, voru alls flokkuð rúmlega 130 tonn í stöðinni. Þar af nam flokkun á málmi um helmingi alls magns en að sögn Rafns Haraldssonar, umsjónarmanns Svans, féll til mjög mikið magn af málmum á umræddu tímabili vegna endurbóta á fiskiðjuverinu á Norðurgarði og tiltektar á gömlum skipavarahlutalager.

,,Áður en Svanur flokkunarstöð tók til starfa var flokkun á sorpi hér á Norðurgarði frekar einföld. Reynt var að flokka timbur, pappa, ryðfrítt stál og ál frá en annað féll til sem almennt sorp eða sem grófur úrgangur,“ segir Rafn en það sem flokkað er í stöðinni kemur mest frá fiskiðjuverinu og fiskiskipum HB Granda.

Að sögn Rafns var skipting flokkunarinnar fyrstu þrjá mánuði starfseminnar þannig að u.þ.b. helmingur voru ýmsar málmtegundir. Síðan var flokkaður grófur úrgangur, almennt sorp, timbur, plast, lífrænn úrgangur, gæðapappír, olíusíur, rafgeymar, rafmótorar, ýmiss konar kaplar, leysiefni og rafhlöður svo fátt eitt sé nefnt.

,,Það, sem fyrir okkur er lagt, er að flokka allt sem frá fyrirtækinu kemur í Reykjavík, þ.e.a.s. fiskiðjuverinu,
skipunum og skrifstofu. Einnig frá verkstæði fiskiðjuversins og skipaverkstæðinu. Markmiðið er að minnka verulega á komandi mánuðum og árum það sem fer í almennt sorp og grófan úrgang,“ segir Rafn en að hans sögn eru tveir starfsmenn í flokkunarstöðinni.

,,Við erum með tvo afbragðsgóða starfsmenn, þá Gunnar Róbertsson og Helga Viðarsson, og þeir náðu strax frá upphafi mjög góðum tökum á starfseminni,“ segir Rafn en hann upplýsir að í Reykjavík sé HB Grandi með samning við Íslenska gámafélagið um að taka við öllum flokkuðum úrgangi. Á Akranesi er það Gámaþjónusta Vesturlands sem tekur á móti öllu sem til fellur hjá HB Granda.

,,Samstarfið hefur gengið mjög vel og t.a.m. hefur Íslenska gámafélagið unnið náið með HB Granda í þróun þessa verkefnis í Reykjavík, í undirbúningi, innleiðingu og nú í eftirfylgni. Meðal annars voru haldnir fundir með starfsfólki á Norðurgarði ásamt hverri einustu áhöfn skipanna,“ segir Rafn Haraldsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir