FréttirSkrá á póstlista

02.02.2016

Tekið á móti rúmlega 29 þúsund tonnum af frystum afurðum

Í fyrra fóru um 29.000 tonn af frystum sjávarafurðum um Ísbjörninn, frystigeymslu HB Granda á Norðurgarði í Reykjavík. Er þar hvort tveggja um að ræða framleiðslu frystitogara félagsins og frystar afurðir frá landvinnslunni í Reykjavík og á Akranesi.

Þetta kemur fram í máli Reynis Daníelssonar, framkvæmdastjóra Landar ehf., en það fyrirtæki sér um löndunarþjónustu HB Granda í Reykjavík og á Akranesi.

Að sögn Reynis nam framleiðsla frystitogaranna þriggja, Örfiriseyjar RE, Höfrungs III AK og Þerneyjar RE, nálægt 16.000 tonnum á árinu og því til viðbótar fóru yfir 13.000 tonn af frystum afurðum frá fiskiðjuverunum á Norðurgarði og Akranesi um Ísbjörninn.

Segja má að bygging Ísbjarnarins austan við fiskiðjuver HB Granda á Norðurgarði hafi fyrir löngu sannað sig sem skynsamleg og arðbær fjárfesting. Fyrir tíma Ísbjarnarins voru frystar afurðir HB Granda ýmist geymdar í frystigámum eða í litlum frystigeymslum félagsins á Norðurgarði og á Akranesi, í Sundahöfn og jafnvel í frystigeymslunni Kuldabola austur í Þorlákshöfn. Með tilkomu Ísbjarnarins var sömuleiðis hægt að fækka ferðum stórra gámaflutningabíla um miðborg Reykjavíkur til mikilla muna.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir