FréttirSkrá á póstlista

31.01.2016

Sjávarútvegsfræðinemar í heimsókn til HB Granda

Um 40 nemendur í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri heimsóttu HB Granda í vikunni. Að sögn Sæmundar Árna Hermanssonar verkefnastjóra hjá HB Granda tókst vel til og áttu góðar umræður sér stað í kjölfar kynningarerindanna, sem Brynjólfur Eyjólfsson markaðsstjóri og Daníel Guðbjartsson, sem sinnir gæðamálum frystiskipa, héldu. 

„Við tókum á móti þeim í forrými Ísbjarnarins, frystigeymslu okkar í Reykjavík, og fengu nemendurnir m.a. veitingar frá dótturfélögum HB Granda á Akranesi, Norðanfiski ehf. og Vigni G. Jónssyni hf.,“ segir Sæmundur.

,,Þessar ferðir eru árvissar og hluti af skólastarfinu,“ segir Daníel, sem er nemandi á lokaári í sjávarútvegsfræðum samhliða starfi sínu hjá HB Granda. „Heimsóknir í sjávarútvegsfyrirtæki veita nemendum meiri innsýn í það sem er að gerast í íslenskum sjávarútvegi í dag,“

,,Hjá HB Granda starfa nú 15 sjávarútvegsfræðingar ef við teljum þá tvo með sem útskrifast á næstunni. Tveir sjávarútvegsfræðingar eru nú í yfirstjórn fyrirtækisins, fjórir á markaðssviði, þrír á skrifstofu botnfisksviðs, einn í fiskiðjuverinu á Akranesi, tveir eru yfirmenn í vinnslunni í Norðurgarði í Reykjavík og tveir í uppsjávarvinnslunni á Vopnafirði, auk þess sem deildarstjóri upplýsingatæknideildar er sjávarútvegsfræðingur,“ segir Kristín Helga Waage Knútsdóttir hjá starfsþróunardeild félagsins en hún var einnig í hópi þeirra sem tók á móti gestunum.

 


Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir