FréttirSkrá á póstlista

29.01.2016

Nýlistasafnið, Kling og Bang og Ólafur Elíasson flytja inn í Marshall húsið

FRÉTTATILKYNNING

Reykjavík 28.01.2016

Árið 1948 stofnuðu Reykjavíkurbær og hlutafélagið Kveldúlfur með sér sameignarfélagið Faxa sf. um byggingu nýrrar síldarverksmiðju í Örfirisey. Bygging verksmiðjunnar hófst árið 1948 og var að hluta fjármögnuð með Marshall aðstoð Bandaríkjanna eftir stríð og er nafn hússins því þaðan komið. Verksmiðjan var í  notkun í um hálfa öld en hefur staðið auð undanfarin ár.

Nú hyllir hins vegar undir að húsið fái verðugt hlutverk á ný og á haustmánuðum er fyrirhugað að opna Marshall húsið við Grandagarð fyrir almenningi.

Í húsinu verður aðsetur Nýlistasafnsins og listamannarekna gallerísins Kling og Bang. Einnig verður þar vinnustofa og sýningarrými Ólafs Elíassonar.

Borgarráð samþykkti í dag að heimila Reykjavíkurborg að gera samning við HB Granda um leigu á húsnæðinu til 15 ára og mun framleigja fyrrnefndum aðilum.

„Það er mikið fagnaðarefni að samstarf hafi tekist um öfluga menningarstarfsemi í Marshall húsinu. HB Grandi mun ráðast í endurgerð hússins af myndarbrag þannig að húsið verður sannkölluð borgarprýði. Reykjavíkurborg kemur að málinu með því að leigutryggja verkefnið. Það sem skiptir þó mestu máli er að náðst hefur samstarf við þrjá spennandi og krafmikla samstarfsaðila á myndlistarsviðinu sem áttu ákveðið frumkvæði að verkefninu. Það mun tryggja að Marshall húsið verður eitt mest spennandi myndlistar- og menningarhús borgarinnar og þó víðar væri leitað,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Á sama tíma verður opnaður veitingastaður á jarðhæð hússins með sérstakri áherslu á sjávarfang.

Nýlistasafnið eða Nýló, var stofnað árið 1978 af hópi 27 myndlistarmanna, en kjarni þeirra hafði áður starfað innan SÚM hópsins. Nýló er listamannarekið sýningarrými og safn, vettvangur uppákoma, umræðna og gjörninga. Nýló hefur lengi verið miðstöð nýrra strauma og tilrauna í íslenskri og erlendri myndlist og hafa margar sýningar í Nýló markað tímamót í íslenskri listasögu. Ár hvert stendur Nýló fyrir öflugri sýningadagskrá auk þess að safna og varðveita listaverk og heimildum sem tengjast frumkvöðlastarfi innan íslenskrar myndlistar.

Kling & Bang gallerí var stofnað af tíu myndlistarmönnum í byrjun árs 2003 og hefur allar götur síðan verið listamannarekið gallerí (non profit). Stefna Kling & Bang er að sýna myndlist sem ögrar samhengi og innihaldi skapandi hugsunar. Það hefur vakið heimsathygli fyrir starfsemi sína og sýningar. Kling & Bang hefur alla tíð lagt áherslu á að bjóða upp á vettvang fyrir framúrskarandi sýningar og tilraunamennsku, jafnt með sýningum upprennandi listamanna og vel þekktra, hérlendra sem erlendra.

Ólafur Elíasson er sá íslenski myndlistarmaður sem lengst hefur náð í listheiminum. Verk hans eru í eigu helstu listasafna heims og hafa sýningar hans gríðarlegt aðdráttarafl. Uppspretta hugmynda Ólafs er ósjaldan náttúra Íslands, og sú birta og litir sem hér er að finna. Ólafur er með vinnustofur í Berlín og Kaupmannahöfn, en hyggst nú líka vera með aðstöðu hér ásamt sýningarrými fyrir sérstök verk.

Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda segir þetta samstarf marka tímamót. „Við í HB Granda erum mjög ánægð með þá uppbyggingu sem á sér stað í nærumhverfi okkar á Granda og það verður ánægjulegt að sjá líf færast í Marshall húsið á nýjan leik. Við hlökkum til að hefja þær miklu framkvæmdir sem framundan eru og munum gera okkar besta til að sníða innviði að því starfi sem þar mun fara fram. Það fer vel á því að starfsemi HB Granda í Reykjavík sé á milli listaverksins Þúfu eftir listakonuna Ólöfu Nordal sem HB Grandi reisti og fyrirhugaðrar listamiðstöðvar í húsnæði félagsins.“

Nýjustu fréttir

Allar fréttir